Neytendastofa telur, að fyrirtækið Garðlist hafi brotið lög um viðskiptahætti og markaðssetningu með auglýsingu, sem nýlega var borin inn á flest heimili í landinu og leit út eins og sendibréf frá nágrönnum í næsta húsi.
Í auglýsingunni segja nágrannarnir frá því að garðverkin hafi verið orðin erfið og því hafi þau ákveðið að leita til Garðlistar. Í bréfinu eru sérstaklega nafngreindur Gunnar sem hafði tekið sig til og fellt tvær aspir og Sigga á 3. hæðinni sem vildi hafa meiri tíma með fjölskyldunni þegar hún ætti frí, í stað þess að standa vaktina í garðinum. Þá er í bréfinu greint frá því að íbúarnir hafi ákveðið að leita til Garðlistar og lýst yfir ánægju með þjónustu þeirra.Neytendastofu bárust fjölmargar kvartanir frá neytendum sem ekki áttuðu sig á því að um auglýsingu væri að ræða fyrr en búið var að ganga úr skugga um að bréfið kæmi ekki frá neinum nágranna þeirra. Vísuðu nokkrir til þess að í húsinu byggju bæði Gunnar og Sigga og lýsingin í bréfinu ætti vel við um þá vinnu sem unnin hafi verið í garðinum og umræður vegna þess. Því hafi bréfið verið mjög trúverðugt og ekkert sem benti til þess að um auglýsingu væri að ræða.
Neytendastofa segir, að samkvæmt lögum eigi auglýsingar alltaf að vera þannig gerðar að neytendur átti sig á því að um auglýsingu sé að ræða. Í auglýsingu Garðlistar hafi staðið í örsmáu letri framan á bréfinu að það væri auglýsing frá Garðlist. Að öðru leyti hafi ekkert í sendibréfinu gefið til kynna að um auglýsingu væri að ræða. Neytendastofa taldi það því ekki fullnægjandi og bannaði Garðlist að birta auglýsingar með þessum hætti.
Á heimasíðu Garðlistar er fjallað um auglýsinguna og segir þar, að hún hafi vakið alveg gríðarlega góð viðbrögð.