Karlmaður var í vikunni dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í Héraðsdómi Vesturlands, fyrir líkamsárás, sem hann framdi á veitingastaðnum Vinakaffi í Borgarnesi þann 25. október síðastliðinn.
Rak hann þar öðrum manni hnefahögg í andlitið svo hann nefbrotnaði og sparkaði svo í öxl og andlit annars manns, sem lá í gólfinu. Var ákært fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás vegna þess. Hafði maðurinn komið inn á staðinn með félaga sínum og höfðu þeir látið ófriðlega, en að sögn vitna hafði róleg stemning verið inni á staðnum þar til þeir komu þangað.
Við yfirheyrslur bar ákærði því við að muna ekkert eftir atvikinu sjálfu, sökum mikillar áfengisneyslu þetta kvöld. Hann myndi aðeins eftir þvögu af fólki og síðan að vera kominn inn í lögreglubíl. Hann hefur fjórum sinnum áður verið dæmdur fyrir brot, meðal annars líkamsárásir og ólögmæta nauðung, á árabilinu 1997 til 2004.
Hann var einnig dæmdur til að greiða rúmar 200.000 krónur í miskabætur og tæpar 300.000 krónur í málskostnað fyrir sig og manninn sem hann kýldi í andlitið.
Benedikt Bogason héraðsdómari kvað upp dóminn.