Skuldir sjávarútvegsfyrirtækisins Soffanías Cecilsson hf. í Grundarfirði nema nokkrum milljörðum króna umfram eignir.
Upphaf ógæfu fyrirtækisins má rekja til þess að framkvæmdastjóri þess tók í mars 2007, með stuðningi meirihluta stjórnar, þriggja milljarða króna lán í Landsbankanum í svissneskum frönkum og japönskum jenum og fjárfesti í hlutabréfum í Landsbankanum og peningamarkaðssjóði Landsbankans.
Megnið af fjárfestingunni er fyrir löngu tapað en eftir situr fyrirtækið með skuldina sem nálgast nú 10 milljarða króna vegna gengisþróunar.
Innbyrðis hefur allt logað í deilum í þessu rótgróna fjölskyldufyrirtæki, þar sem minnihlutaeigandinn Magnús Soffaníasson, sem á 30,14% í félaginu, hefur átt í stríði við mága sína tvo, þá Sigurð Sigurbergsson framkvæmdastjóra og Rúnar Sigtrygg Magnússon stjórnarformann, vegna ágreinings um fjárfestingarstefnu fyrirtækisins og um umboð framkvæmdastjórans til skuldsetningar félagsins. Ágreiningsefnin eru óútkljáð; Magnús vann mál gegn félaginu í Héraðsdómi Vesturlands, en því var áfrýjað til Hæstaréttar.