Nauðsynlegt að hlusta á börnin á erfiðum tímum

Fjóla minnir á að 1717 síminn er opinn allan sólarhringinn.
Fjóla minnir á að 1717 síminn er opinn allan sólarhringinn. mbl.is/Golli

„Þessu er ekki bara beint til barnanna heldur líka til foreldra og aðstandenda. Við viljum vekja athygli á því hvað samvera og það að hlusta á börnin skiptir miklu máli,“ segir Fjóla Einarsdóttir, verkefnisstjóri Hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

Í dag hefst átaksvika Hjálparsímans undir yfirskriftinni Hlustum á börnin þar sem m.a. verður minnt á að börn og unglingar geta leitað til Hjálparsímans eftir ráðgjöf og upplýsingum.

Fjölmargar rannsóknir sýna að þunglyndi og kvíði foreldra færist yfir á börn þeirra og við erfiðar aðstæður eykst hættan á að börn verði fyrir ofbeldi eða verði vitni að því. Að sögn Fjólu hafa börn allt niður í 10 ára aldur hringt í Hjálparsímann 1717 þótt algengara sé að unglingar leiti þangað, en mikilvægt sé að þau viti að þetta úrræði sé fyrir hendi.

„Þeir sem svara í símann hafa fengið mjög viðamikla þjálfun í viðtalstækni, sálrænni skyndihjálp og þess háttar,“ segir Fjóla. Þeim sem eiga í miklum samskiptaerfiðleikum við börnin sín og unglinga er í framhaldinu beint til Fjölskyldumiðstöðvarinnar að sögn Fjólu. Algengt er að aukið álag og streita í samfélaginu hafi áhrif á fjölskyldulífið enda hefur málum hjá Fjölskyldumiðstöðinni fjölgað um hátt í 40% frá sama tíma í fyrra.

Fjóla leggur áherslu á að nafnleysi og trúnaður ríki hjá Hjálparsímanum 1717, númerið er gjaldfrjálst og á símreikningum sést ekki að hringt hafi verið þangað.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rauða krossins, www.redcross.is, og á upplýsingasíðu um geðheilsu barna, www.umhuga.is. una@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert