Öryggisdagur vélhjólamanna á morgun

mbl.is/Frikki

Vélhjólaklúbburinn Sober Riders MC Kerúbar stendur fyrir öryggisdegi vélhjólamanna á morgun, annan í Hvítasunnu, klukkan 14-17.

Öryggisdagurinn er haldinn á bílaplani Digraneskirkju í Kópavogi og er í tengslum við árlega Hjólamessu Sr. Gunnars Sigurjónssonar í Digraneskirkju, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá vélhjólaklúbbnum. Tilgangurinn er að minna á öryggi og ábyrgð vélhjólamanna. Þetta er í fyrsta skipti sem SRMC Kerúbar standa fyrir slíkum viðburði og stefnt er að því að hann verði haldinn árlega hér eftir í  tengslum við hjólamessuna.

Farið verður yfir öryggisatriði í sambandi við akstur vélhjóla, búnað þeirra, öryggisbúnað knapa, aðferðir og framkvæmd hópkeyrslu, eðlisfræði tengda vélhjólum og boðið upp á æfingabrautir. Reyndir vélhjólamenn ætla að deila reynslu sinni af öryggisatriðum, akstri, meðhöndlun, og hirðu vélhjóla og tengdum búnaði.

SRMC Kerúbar ætla að deila með öðrum reynslu sinni og nauðsyn á ströngum reglum varðandi hópakstur, en þessu atriði er ekki sinnt í kennslu vélhjólamanna til ökuprófs.

Aðgangur er án endurgjalds og öllum opinn sem vilja fræðast um öryggi á vélhjólum. Lítt reyndir vélhjólamenn og byrjendur eru sérstaklega hvattir til þess að mæta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert