Frá því um kl. 19 í gærkvöldi hefur verulega dregið úr skjálftavirkninni við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Veðurstofan telur að jarðskjálftahrinan sé að fjara út og minnkandi líkur séu á öflugum skjálftum á svæðinu næstu daga.
Upptök jarðskjálftanna eru á sömu slóðum og áður en eftirskjálftavirknin er núna meiri við vestanvert Fagradalsfjall.
Í morgun kl. 7:45 varð eftirskjálfti að stærð 3 við vestanvert Fagradalsfjall. Aðrir eftirskjálftar eru flestir miklu minni.
Minnkandi líkur eru á að jarðskjálftar að stærð 4 eða stærri verði á svæðinu næstu daga.
Eins og staðan er núna þá er líklegast að jarðskjálftahrinan fjari smátt og smátt út, að sögn Veðurstofunnar.