Fólk er farið að streyma í Hallgrímskirkju þar sem samkirkjuleg friðarstund hefst klukkan 15 í tilefni af heimsókn Dalai Lama, andlegs leiðtoga Tíbeta, til Íslands.
Dalai Lama kom til Íslands í gærkvöldi frá Danmörku þar sem hann átti m.a. fund með forsætisráðherra og utanríkisráðherra landsins. Kínversk stjórnvöld mótmæltu fundinum formlega.
Ekki er gert ráð fyrir að Dalai Lama hitti íslenska ráðherra en hann mun á morgun heimsækja Alþingi og eiga fund með utanríkismálanefnd þingsins. Þá mun hann flytja fyrirlestur og heimsækja Háskóla Íslands.