Marxisti en ekki lenínisti

Dalai Lama á blaðamannafundi í Reykjavík í dag.
Dalai Lama á blaðamannafundi í Reykjavík í dag. mbl.is/Kristinn

„Út frá félagslegum og hagfræðilegum forsendum er ég marxisti,” sagði hinn fjórtándi Dalai Lama, andlegur og veraldlegur leiðtogi Tíbeta, við blaðamenn á Hilton Nordica eftir hádegið í dag. „En ég er ekki Lenínisti, þeir eru valdstjórnarsinnar,” bætti hann við. Hann sagði frá því að þegar hann fór til Peking árið 1954 hefði hann sagt kommúnistum að hann vildi ganga í flokkinn. ,,Getið þið hugsað ykkur það, Dalai Lama meðlimur í kommúnistaflokknum!” Hann hitti við nokkur tilefni Mao Tse Tung, formann kínverska kommúnistaflokksins. „Ég held að um miðbik sjötta áratugarins hafi völdin verið búin að spilla honum.”

Dalai Lama var þar að svara þeirri spurningu hvort hann væri með ferðum sínum um heiminn og fundum með leiðtogum að reyna að gera lítið úr og kollvarpa stjórnvöldum í Kína. Hann sagði að skin og skúrir hefðu skipst á í meira en 1.000 ára samskiptum Tíbeta við Kínverja, en upp á síðkastið, eftir átökin í mars 2008, hefðu skilaboðin verið misvísandi.

Þótt samskiptin við Kínastjórn væru erfið, nefndi hann að eftir átökin á síðasta ári hefðu um 400 blaðagreinar verið skrifaðar í kínversk dagblöð af Kínverjum, sem sýndu samhug með málstað Tíbeta og voru gagnrýnar á stefnu kínverskra stjórnvalda. Þetta væri jákvætt merki.

Hann sagði að út frá þröngu sjónarhorni gæti málstaður Tíbeta virst vonlaus. En út frá heildarmyndinni og samhug fólks víða um heiminn með málstað þeirra blasti önnur mynd við, mikil von væri enn til staðar.

Dalai Lama byrjaði fundinn á því að tala um þau grunngildi sem hann reynir að koma til skila við annað fólk. Hann kvaðst fyrst og fremst vera maður, einn af sex milljörðum manna á jörðinni. Hans skuldbinding væri fyrst og fremst sem ein manneskja við aðrar manneskjur. Í öðru lagi væri hann búddisti og sem slíkur alaði hann fyrir hjartahlýju og samkennd fólks á milli, enda færðu öll helstu trúarbrögð heimsins sömu skilaboðin: Ást, umhyggju og samkennd.

„Á ferðum minum reyni ég að gera grein fyrir hinni endanlegu uppsprettu hamingju, sem byggist á friðsamlegum tilfinningum og rólegum huga. Þetta tengist samkennd og hjartahlýju,” sagði hann. Þótt peningar skipti máli skipti annað meira máli. ,,Fólk sem hugsar fyrst og fremst um peninga og völd, vinsamlegast veitið innri gildum ykkar dálitla athygli.”

Dalai Lama heldur nú til þvertrúarlegrar bænastundar í Hallgrímskirkju með biskupi Íslands, Karli Sigurbjörnssyni, þar sem öllum er opinn aðgangur á meðan húsrúm leyfir. Hefst sú athöfn klukkan 15.00.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka