Aðstæður á fjármálamarkaði setja mark sitt á uppgjör Kópavogsbæjar vegna ársins 2008. Ársreikningurinn, sem er til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs í dag, sýnir tæplega 1 milljarðs króna afgang af aðalsjóði áður en horft er til fjármagnskostnaðar og gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Heildarskuldir samantekins ársreiknings A og B hluta án lífeyrisskuldbindinga hækkuðu milli ára úr 15,8 milljörðum kr. í árslok 2007 í 33,5 milljarða kr. í árslok 2008 eða um 17,7 milljarða kr. Hækkunin skýrist einkum af reiknuðum fjármagnsliðum og yfirteknum lóðum. Í tilkynningu bæjarins segir, að þrátt fyrir slæmt árferði sé eiginfjárhlutfall Kópavogsbæjar um 21% og eigið fé rúmir 10 milljarðar króna.
Í tilkynningu Kópavogsbæjar segir, að daglegur rekstur hafi verið í samræmi við fjárhagsáætlun, tekjur heldur meiri en gjöldin nálægt áætlun. Sé hins vegar samstæðan skoðuð, A og B hluti ársreikningsins, sé niðurstaðan neikvæð sem nemur 9.620.421.000 kr.
„Neikvæð staða byggist einkum á þremur þáttum:
Við þetta má bæta hækkun á framkvæmdakostnaði vegna verulegrar hækkunar á byggingarvísitölu.
Skatttekjur urðu 513 milljónum kr. hærri en áætlað var, afskriftir 231 milljón kr. umfram áætlun og aðrir liðir aðalsjóðs í samræmi við áætlun. Heildarfjárfestingar A og B hluta (brúttó) urðu um 14,7 milljarðar kr. á árinu 2008 eða rúmlega helmingi meiri en áætlað var. Munar mestu um yfirteknar lóðir en landakaup fóru úr 3,6 milljörðum kr. samkvæmt áætlun í 9,7 milljarða kr," segir í tilkynningunni.
Fram kemur að íbúum Kópavogs hafi á undanförnum áratug fjölgað um 51,3% á sama tíma og landsmönnum fjölgaði um 17,5%. Kópavogsbúar voru 19.802 í lok árs 1997 en 29.957 í lok ársins 2008.