Áhættufíklar á Geirsnefi

Lögreglan hefur áhyggjur af áhættuhegðun ungra ökumanna sem stunda glæfraakstur á Geirsnefi að næturlagi. Myndir af akstrinum hafa verið birtar á vefnum YouTube en bifreið sést þar aka framhjá brú og nánast hanga í snarbrattri hlíð fyrir neðan Miklubraut, þar til komið er inn á veginn aftur.  Fyrir neðan rennur Elliðaáin gegnum ræsi undir Miklubraut.

Myndbandið er greinilega tekið að vetrarlagi en þá eru aðstæður enn hættulegri en ella. Árni Friðleifsson varðstjóri hjá lögreglunni segir að áhættufíklar virðist hafa gert sér þetta að leik en þetta sé mjög, mjög bratt og þarna geti orðið alvarlegt slys, ekki síst ef það hafi rignt og jarðvegurinn sé laus í sér.  Ummerki eru í brattanum eftir margar bifreiðar.

Árni segist telja að þarna séu ungir ökumenn á ferðinni en lögreglan hefur spurnir af því að þetta hafi staðið yfir í sex til sjö mánuði. Lögreglan hefur nýlega séð myndbandið á YouTube en ekki hefur ekki enn rætt við bílstjórann eða myndatökumanninum.  

Árni segir að ökumennirnir séu að stofna lífi sínu í hættu, þarna gæti orðið alvarlegt slys ef bíll færi niður í ræsið. Reykjavíkurborg skoðar nú hvernig sé hægt að girða af svæðið.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka