Innan við helmingur þeirra sem taka afstöðu í nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Heimssýn, samtök sjálfstæðissinna, telja að leggja beri mikla eða frekar mikla áherslu á aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Yfirgnæfandi meirihluti eða 95% telur hins vegar frekar eða mjög aðkallandi að leysa fjárhagsvanda íslenskra heimila og 91,5% telja að ríkisstjórnin eigi að leggja áherslu á að sinna vanda fyrirtækja.
Samkvæmt könnuninni telja 41,9% þeirra sem tóku þátt í könnuninni frekar eða mjög mikilvægt að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið um inngöngu Íslands. 44,3% telja hins vegar að ríkisstjórnin eigi að leggja litla eða frekar litla áherslu á aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Könnunin, sem var netkönnun, var framkvæmd 20. - 27. maí. Úrtakið var 1284 manns og svarhlutfall 65,3%.
Í könnuninni var fólk beðið um að svara því hversu mikla áherslu það telji að ríkisstjórnin eigi að leggja á umrædd mál. Möguleikarnir voru mjög mikla áherslu, frekar mikla áherslu, hvorki né, frekar litla áherslu og mjög litla áherslu.