Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbets, heimsótti Alþingi Íslendinga í dag ásamt föruneyti sínu en hópur fólks beið fyrir utan Alþingishúsið eftir að sjá leiðtoganum bregða fyrir. Forseti Alþingis tók á móti honum og færði honum heklað sjal og hraunmola frá Þingvöllum. Dalai Lama færði forsetanum fallegan síðan trefil. Leiðtoginn hitti einnig utanríkismálanefnd Alþingis og þar með fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Dalai Lama og hinir munkarnir settu fallegan svip á Alþingi en klæðnaður hans var ívið litríkari en hinna þótt margt hafi breyst þar innandyra eftir að bindisskylda var afnumin.