Tveir menn voru handteknir aðfaranótt hvítasunnudags þar sem þeir voru vopnaðir kúbeini að brjótast inn í fyrirtæki í Gagnheiði á Selfossi. Annar mannanna hafði hulið andlit sitt með lambhúshettu.
Þegar þeir urðu lögreglu varir lögðu þeir á flótta en lögreglumennirnir hlupu þá uppi. Báðir voru mennirnir ölvaðir og voru látnir renna af sér í fangageymslu. Þeir voru látnir lausir að loknum yfirheyrslum, að sögn lögreglunnar á Selfossi.
Sjö tilkynningar bárust í síðustu viku um innbrot í sumarbústaði og í eitt hjólhýsi í Grímsnes- og Grafningshreppi flest í Norðurkotslandi. Í flestum tilvikum voru hurðar og gluggar spenntir upp og rótað í skápum og ýmsum munum stolið. Ekki er vitað hverjir voru þarna að verki en hugsanlegt að sömu menn hafi þátt í flestum innbrotunum.