Hakk hefur hækkað um 67%

ASÍ segir, að dæmi séu um að matvara sem kannað var verð á þann 26. maí í lágvöruverðsverslunum, hafi hækkað um tugi prósenta frá verðkönnun ASÍ sem gerð var í byrjun febrúar. Einnig megi sjá verðlækkanir á tímabilinu.

Þannig hefur ungnautahakk með 8–12% fituinnihaldi hækkað um 67% í Nettó, 40% í Krónunni og 18% í Bónus. Engin verðhækkun varð á vörunni í Kaskó.

Ýsuflök, frosin og roðlaus hafa lækkað um 18% í Bónus, 15% í Krónunni, 10% í Nettó og 9% í Kaskó.  Einnig hafa flestar tegundir ávaxta og grænmetis lækkað frá því í febrúar.

Ódýrasta fáanlega heilhveiti samlokubrauðið hefur hækkað mest um 15% hjá Kaskó, 8% hjá Krónunni og 6% hjá Bónus, en brauðið hefur lækkað hjá Nettó um 17%. Myllu Fittý samlokubrauð hefur lækkað um  12% hjá Nettó og um 11% hjá Kaskó og 6% hjá Krónunni.

Ódýrasta kílóverð á ávöxtum og grænmeti hefur að mestu lækkað, þó hafa appelsínur og kínaklál hækkað um 11% hjá Bónus og kínakálið hefur hækkað um 8% hjá Kaskó. Kínakál lækkaði um 36% í Nettó og  24% í Krónunni.Appelsínurnar lækkuðu um 32% í Nettó, 31% í Krónunni og 7% í Kaskó. Avocado lækkaði mest um 17% í Bónus og um 9% í Kaskó og Nettó.

Ódýrasta fáanlega spagetti hækkaði um 39% hjá Krónunni en lækkaði um 34% hjá Nettó og Kaskó og um 1,5% í Bónus. Coca Cola 2 l, hækkaði um 7% hjá Bónus, Krónunni og Nettó en um 6% hjá Kaskó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka