Sex karlar og ein kona sitja í borgarráði Reykjavíkur en kosið var í borgarráð í upphafi borgarstjórnarfundar í dag.
Af hálfu Sjálfstæðisflokks voru Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon kjörnir í borgarráð og af hálfu Framsóknarflokks var Óskar Bergsson kjörinn en hann er jafnframt formaður ráðsins.
Dagur B. Eggertsson og Björk Vilhelmsdóttir voru kjörin í borgarráð fyrir hönd Samfylkingarinnar og Þorleifur Gunnlaugsson af hálfu Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs. Hann kemur í stað Svandísar Svavarsdóttur og er sá eini sem kemur nýr inn í ráðið.
Björk kvaddi sér hljóðs og vakti athygli á kosningunni og óeðlilegum kynjahlutföllum. Skoraði hún jafnframt á meirihlutann að ráða bót á málinu.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, var endurkjörinn forseti borgarstjórnar. Dagur B. Eggertsson var kjörinn 1. varaforseti og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins var kjörinn 2. varaforseti.