Mesta umrót síðan í stríðinu

Davíð Oddsson í Kastljósinu fræga sem Guðni gerir að umtalsefni.
Davíð Oddsson í Kastljósinu fræga sem Guðni gerir að umtalsefni.

„Ég er nokkuð viss um og ætla að veðja á að þessi ár sem við erum að lifa núna muni teljast eins söguleg og eins miklir umbrotatímar í Íslandssögunni og styrjaldarárin," segir Guðni Th. Jóhannesson, lektor við HR. Hann lýsir ýtarlega samskiptum íslenskra og breskra ráðamanna fyrir hrun í nýrri bók.

„Þetta eru stærstu þáttaskilin í Íslandssögunni frá styrjaldarárunum og því draumur sagnfræðinga með áhuga á samtímanum að ráðast í svona skrif,“ segir Guðni, en bók hans „Hrunið“ kemur út á morgun.

Guðni aflar víða fanga í bók sinni og vitnar meðal annars til tölvupósts Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til Geirs H. Haarde þar sem hún eggjar Geir til að víkja Davíð Oddssyni úr sæti seðlabankastjóra.

Upplýsir ekki um sendanda

Guðni, sem vill ekki upplýsa hver afhenti honum tölvupóstinn, segir efni bréfsins forvitnilegt.

„Það er athyglisvert að Ingibjörg eggjar Geir til dáða. Hún segir við hann eitthvað á þessa leið: „Þú getur ekki látið þetta yfir þig ganga að seðlabankastjóri komi svona fram,"" segir Guðni um póstinn sem var sendur eftir sögulegt og umdeilt Kastljósviðtal við Davíð Oddsson þriðjudagskvöldið 7. október.

„Það gerist í þessari sömu viku að Samfylkingin lætur bóka á ríkisstjórnarfundi að formaður bankastjórnar Seðlabankans sitji ekki í umboði hennar. Ef ég tala frjálslega þá sýnist það fáránlegt að í verstu efnahagskrísu þjóðarinnar segir helmingur ríkisstjórnarinnar: Við berum enga ábyrgð á valdamesta embættismanni landsins. Auðvitað var þetta fáránlegt ástand."

Guðni fjallar einnig ýtarlega um fundi og samtöl íslenskra og breskra ráðamanna örlagamánuðina áður en íslenska bankakerfið hrundi.

Geir fullvissaði Brown

Hann rifjar upp samtal Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Alistairs Darlings fjármálaráðherra föstudaginn 3. október.

„Erindi Darlings er nokkuð brýnt. Hann er að segja að íslenskur banki í London sé að flytja fé frá Bretlandi til Íslands á ólöglegan hátt og að við það verði ekki unað og vilji Geir vinsamlegast gera eitthvað í málinu.

Til að gera langa sögu stutta þykist Geir ganga úr skugga um að þetta sé allt á misskilningi byggt og telur að Bretar hljóti að átta sig á því.

Svo gerist það á sunnudagskvöldið að Brown hefur samband við Geir og aftur er þetta nefnt, ólöglegir fjármagnsflutningar, sem Bretar muni ekki sætta sig við. Það samtal snýst þó að miklum hluta um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því Brown – ekki af því að hann sé einhver sérstakur vinur Íslendinga – lítur svo á að vandi Íslendinga sé líka vandi Breta. Hann segir við Geir eitthvað á þessa lund:

„Þið verðið að leita aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þið getið ekki leyst bankakreppuna upp á eigin spýtur. Þið verðið að tala við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, helst á morgun," hefur Guðni lauslega eftir breska forsætisráðherranum.

Hver verður dómur sögunnar?

Guðni telur samtölin afdrifarík.

„Það er ef til vill einn af stóru vendipunktunum í þessari sögu og um leið spurning hvort það verði dómur sögunnar að ríkisstjórnin hafi reynt of lengi að forðast þetta, að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hver veit hvað hefði gerst, ef niður8 staðan hefði orðið sú, að Ísland hefði leitað til sjóðsins?

Því eins og Brown hamraði á við Geir H. Haarde sunnudagskvöldið 5. október: „Þá mun enginn lána ykkur peninga nema þið gangið inn í áætlun sjóðsins. Það munu allir líta svo á að menn séu að henda peningum í einhverja hít nema fyrir hendi sé áætlun frá sjóðnum um að stýra endurreisn bankakerfisins á Íslandi.

Í staðinn voru sett neyðarlög og þau leiddu til þess að Bretar urðu enn tortryggnari og ræddu um að Íslendingar ætluðu bara að loka sig af á þessari eyju og láta allar erlendar skuldir falla."

Þegar eignirnar voru frystar

Guðni fjallar einnig um samtal Pauls Myners, starfsmanns breska fjármálaráðuneytisins, og Árna M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, að morgni 8. október sl.

„Það sem mér þykir fréttnæmast við þetta samtal, þegar Bretar eru nánast í þeim töluðu orðum að frysta allar eignir Landsbankans, er að Meyners er að segja Árna að Bretum hafi verið nauðugur einn sá kostur að gera þetta en segir hins vegar ekki berum orðum hvað „þetta" feli í sér sem þeir eru að gera.

Hann átti þá sem sagt við eignafrystingu á grundvalli laga um varnir gegn hryðjuverkum. Það vekur auðvitað athygli, og það er ekkert endilega við Árna að sakast í því, að hann er ljúfmennskan uppmáluð og segir: „Við erum líka allir af vilja gerðir til að leysa þennan mikla vanda og vonandi getum við unnið saman."

Annars vegar eru Bretarnir ekki að segja alveg hreint út til hvaða ráða þeir ætla að grípa og hins vegar áttar Árni sig ekki á því, og það er kannski ekki að undra, að þeir eru að fara að beita Íslendinga ofboðslega hörðum aðgerðum."

Árni gaf Darling færi á túlkun

Guðni víkur einnig að samskiptum Árna og Darlings í miðju hruninu.

„Það sem eftir stendur er sú staðreynd að Árni gaf Darling pínulítið færi á að túlka afstöðu stjórnvalda á Íslandi sem svo að þau ætluðu hugsanlega ekki að standa við skuldbindingar sínar um ábyrgðir á Icesave-innistæðum og það nýttu Bretarnir sér til hins ýtrasta.

Það má segja að það hefði verið heppilegra ef Árni hefði ekki gefið þennan litla höggstað á sér, með því að segja að Íslendingar verði fyrst að sjá hvað þeir geta gert í sínum eigin vandamálum áður en þeir fara að snúa sér að Icesave, eða eitthvað í þá áttina."

Guðni segir óvissuna um tryggingar íslensku ríkisstjórnarinnar hafa skapraunað Bretunum.

„Það sem gerði Bretanna hvað reiðasta er sú staðreynd að að morgni mánudagsins 6. október ákvað íslenska ríkisstjórnin að tryggja að fullu allar bankainnistæður á Íslandi.

Bretarnir sögðu: „Ef þið ætlið að gera þetta þá verðið þið að tryggja innistæður Icesave í London. Icesave er bara útibú Landsbankans í Bretlandi. Þið getið ekki skipt þessu svona." Icesave-deilan öll sýndi í hnotskurn að í alþjóðasamskiptum er það vald og máttur sem ræður, ekki lagatúlkanir."

Njótum þess að vita framhaldið

Aðspurður hvort ekki sé nokkuð grimmt að gagnrýna fulltrúa íslenskra stjórnvalda fyrir mistök, í ljósi erfiðra aðstæðna og hraðrar atburðarásar, segir Guðni að vissulega verði að setja hlutina í samhengi.

„Við sem erum að velta þessum hlutum fyrir okkur eftir á vitum hvað gerist næst á meðan mennirnir sem hér koma við sögu eru þarna í nánast algerri óvissu.

Það er kannski heildarniðurstaðan í þessari sögu allri að það er ekki hægt að finna einhvern einn sem ber meginábyrgð á því að svo fór sem fór og ekki heldur einhvern einn atburð eða atvik, heldur var þetta ótölulegur fjöldi atburða sem réð því að allt fór til fjandans."

– Hvað með fund Gordons Browns og Geirs H. Haarde í Downingstræti 10. í apríl 2008? Kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til umræðu?

„Svo virðist ekki vera ef marka má minnisblaðið um fundinn. Brown vék talinu að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en var ekkert að hvetja Íslendinga eða letja að leita til hans. Það virðist ekki hafa verið umræðuefnið þarna. Fundurinn sýnir og sannar það sem við vissum fyrir að Bretar voru farnir að hafa sívaxandi áhyggjur af því að íslensku bankarnir gætu lent í vandræðum og að þau vandræði gætu bitnað á breskum sparifjáreigendum."

Hefðu átt að bregðast við fyrr

– Hefðu Íslendingar átt að bregðast við þessum vanda fyrr?

„Eftir á að hyggja kemst maður ekki hjá því að sjá það. Því miður var þetta „reddast"-hugarfar of ríkt hjá okkur. Hins vegar líka það þegar vel gekk, þegar allt var hér í uppsveiflu, að þá klingdu vissulega viðvörunarbjöllur en það voru allt of fáir sem tóku mark á þeim.

Að sama skapi voru allt of margir sem töldu að þeir sem væru að klingja þessum bjöllum væru útlendingar sem vissu ekkert um íslenska efnahagsundrið og kraftinn í Íslendingum. Þannig að við lokuðum dálítið augunum fyrir því sem við hefðum átt að sjá."

Guðni rifjar upp erjur Davíðs og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Eins og sást á sínum tíma var Davíð ekki hrifinn af því í fyrstu að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sá margt slæmt við það samstarf.

Svo þegar ríkisstjórnin taldi að hún ætti engra annarra kosta völ en að biðja um hjálp frá sjóðnum þá var Davíð áfram í stóli seðlabankastjóra og varð auðvitað að vinna með fulltrúum sjóðsins og gerði það eflaust af bestu samvisku.

Hins vegar er það augljóst og um það vitna margar frásagnir að það kom fyrir að það kastaðist í kekki.

Setninguna sem ég hef eftir Davíð á einum fundinum með fulltrúum AGS hef ég úr nokkrum áttum þótt enginn vildi gangast við henni undir nafni. Hún var svona á ensku: „You do not set the agenda in my house" eða „Þið ráðið ekki dagskránni í mínum húsum"."

Rúður styrktar í Alþingishúsinu svo lítið bar á

– Þú skrifar í bókinni að í desemberbyrjun hafi starfsmenn Alþingishússins óttast að árás yrði gerð á húsið. Hversu mikill var þessi ótti?

„Þeir sem koma að því að gæta öryggis þinghússins þóttust hafa rökstuddan grun um að þeir væru til hér á landi sem vildu ef til vill reyna að brjóta sér leið inn í þinghúsið, þá með því að brjóta niður hurðir og rúður. Þess vegna voru hurðir styrktar og rúður líka svo lítið bar á."

– Óttuðust starfsmenn Alþingis að eitthvað í líkingu við atburðina 1949, þegar lögregla beitti táragasi á Austurvelli gegn andstæðingum inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið, myndi endurtaka sig?

„Ekki þá, en þegar komið er fram í miðjan janúar eru þeir örugglega til í lögregluliðinu sem sjá fyrir sér að þetta geti farið gjörsamlega úr böndunum. Það sem olli þessum áhyggjum kannski frekar en annað var sæmilega skipulagður atgangur 8. desember þegar hópur fólks hraðaði sér í þinghúsið og veittist að þingvörðum.

Eftir það jukust þessar áhyggjur. Aðfaranótt 21. janúar léku logar um þinghúsið og þá eru menn að leika sér að eldinum," segir Guðni Th. Jóhannesson.

Davíð Oddsson ekur á brott frá Seðlabankanum með þeim Geir …
Davíð Oddsson ekur á brott frá Seðlabankanum með þeim Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen eftir stíf fundahöld þegar ljóst varð að bankakerfið riðaði til falls. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Guðni vitnar til samskipta fjármálaráðherranna Alistair Darling og Árna Mathiesen.
Guðni vitnar til samskipta fjármálaráðherranna Alistair Darling og Árna Mathiesen. Reuters
Sunnudagskvöldið 5. október sl. lagði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hart …
Sunnudagskvöldið 5. október sl. lagði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hart að Geir H. Haarde að Ísland leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Toby Melville
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði þá kröfu eftir Kastljósviðtalið að Geir …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði þá kröfu eftir Kastljósviðtalið að Geir beitti sér fyrir því að Davíð hætti í seðlabankanum.
Föstudaginn 3. október lýsti Darling yfir óánægju Breta í samtali …
Föstudaginn 3. október lýsti Darling yfir óánægju Breta í samtali við Árna með að íslenskur banki væri að flytja fé ólöglega til Íslands. Reuters
Davíð fór ekki í grafgötur með skoðanir sínar á fundum …
Davíð fór ekki í grafgötur með skoðanir sínar á fundum með fulltrúum AGS. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert