Norskt systurskip Þórs í Reykjavík

Norska varðskipið Harstad sem kom til Reykjavíkur í morgun.
Norska varðskipið Harstad sem kom til Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Júlíus

Norska varðskipið Harstad liggur nú við festar í Reykjavík en hingað kom skipið í morgun í boði Landhelgisgæslunnar. Skipið verður til sýnis fyrir almenning á sjómannadaginn.

Norska skipið er nánast systurskip íslenska varðskipsins Þórs sem nú er í smíðum í Chile.

Harstad liggur við Ægisgarð til morguns en hér fara fram áhafnarskipti.  Á fimmtudag og föstudag verður varðskipið við æfingar með varðskipi og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Harstad  kemur síðan inn til Reykjavíkur aftur um sjómannadagshelgina og verður til sýnis fyrir almenning á sjómannadaginn 7. júní frá kl. 13:30-17:00 þar sem það mun liggja við Miðbakkann í Reykjavík.

Liður í samstarfssamningi

Heimsókn Harstad er liður í samstarfssamningi milli Landhelgisgæslunnar og norsku strandgæslunnar  á sviði strandgæslu, öryggismála, leitar og björgunar, sem undirritaður var í október 2008.  Samkomulagið er á sviði sameiginlegra aðgerða vegna hugsanlegra mengunarslysa, fiskveiðieftirlits, skipta á skipaumferðarupplýsingum, leitar og björgunar á hafinu og ýmissa annara málefna er tengjast verkefnum á sviði strandgæslu. Er samningurinn sambærilegum þeim sem gerður var við Dani í apríl 2007. 

Harstad var afhent norsku strandgæslunni í janúar 2005. Það er 3200 brúttótonn að þyngd, 83 metrar að lengd og 15 metra breitt. Mesti hraði eru 18,5 sml. Um borð er 40mm Bofors fallbyssa. Í áhöfn Harstad eru 18-21 maður.

Hið nýja fjölnota varðskip, Þór, er  talsvert stærra  en Harstad, 4.250 brúttótonn, 93,6 metrar að lengd og 16 metra breitt. Dráttargeta skipsins er 120 tonn og ganghraði 19,5 sjómílur. Varðskipið Þór verður afhent á fyrri hluta næsta árs.

Harstad heldur úr höfn á mánudag.  

Norska varðskipið Harstad.
Norska varðskipið Harstad.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert