Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, sagði á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag að rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar bæri vott um styrka fjármálastjórn Reykjavíkurborgar. Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði hinsvegar að niðurstaða samstöðureiknings borgarinnar væri algert Íslandsmet í hallarekstri.
Rekstrarniðurstaða A-hluta borgarsjóðs eftir fjármagnsliði var jákvæð um 2,3 milljarða króna. Fjárhagsáætlun gerði hins vegar ráð fyrir 10,9 milljarða jákvæðri afkomu og skýrist mismunurinn einkum af því að áætluð sala á byggingarétti gekk ekki eftir árið á síðasta ári. Nettó fjármagnstekjur A-hluta voru 296 milljónir en gert var ráð fyrir 3,3 milljörðum. Helsta skýringin á lakari afkomu fjármagnsliða felst í gengismun á erlendum lánum Eignasjóðs.
Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 8 milljarða en neikvæð um 71,5 milljarða króna eftir fjármagnsliði. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 10,1 milljarða tekjuafgangi. Rekstrarniðurstaðan er því 81,6 milljörðum lakari en áætlun gerði ráð fyrir. Viðsnúningur í rekstri skýrist einkum af reiknuðu gengistapi Orkuveitu Reykjavíkur sem nam um 93 milljörðum króna, auknum greiðslum vaxta og verðbóta.