Baggi á bílaumboðum

mbl.is/Ómar

Bílaumboðin eru með hundruð bifreiða í biðstöðu vegna óuppgerðra rekstrarleigusamninga. Staðan er misalvarleg eftir umboðum, en viðræður standa yfir við fjármögnunarfyrirtæki á borð við Lýsingu, SP-fjármögnun og fleiri, um uppgjör á slíkum samningum.

Vandamálið felst í því, fyrir umboðin, að bílar voru flestir settir í rekstrarleigu til 2-3 ára, en í samningum voru yfirleitt ákvæði um endurkaup viðkomandi umboðs á bílnum, þegar leigunni lyki. Samningarnir voru gerðir í erlendri mynt og kjörin á endurkaupunum því háð gengi krónunnar. Hún hefur hrunið síðan þá og eru endurkaupin því afar óhagstæð umboðunum. Á næstu þremur árum má reikna með allt að 6.000 rekstrarleigusamningum sem þarf að gera upp, að sögn Özurar Lárussonar, framkvæmdastjóra bílgreinasambandsins.

„Okkur myndi blæða út ef við ættum að borga bílana á því verði sem þeir koma inn á. Ef bíll sem hægt er að selja á þrjár milljónir kemur inn til okkar á sex milljónir, þá skiptir engu máli hvaða umboð á í hlut, það ætti erfitt með að klára alla samningana þannig,“ segir Skúli K. Skúlason, framkvæmdastjóri hjá Ingvari Helgasyni. Hann segir að um hundrað bílar séu nú óuppgerðir, en þeir eru í geymslu í Gufunesi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert