Fimm milljónir til ungs fólk í atvinnuleit

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir

Tíu verkefni fengu í dag úthlutað rúmum fimmtán milljónum úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar. Fimm milljónir verða notaðar til að fjármagna verkefni ungs fólks í atvinnuleit.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, úthlutaði í dag styrkjum úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar til tíu verkefna og nemur heildarupphæðin um  15.220.000.

Verkefnin sem styrkt eru að þessu sinni eru fjölbreytt og má þar nefna átaksverkefni gegn einelti, alþjóðlegt ungmennahús og Náttúrugæslustöðin Reykjavík.

Fyrr í vor samþykkti borgarstjórn að setja á laggirnar miðstöð fyrir ungt fólk í atvinnuleit í Austurbæ. Ákveðið var að úthluta fimm milljónum úr sjóðnum til að fjármagna ýmis verkefni að frumkvæði ungs og skapandi fólks í gegnum miðstöðina.

„Verkefnin sem sjóðurinn styrkir að þessu sinni eiga það sameiginlegt að ýta flest undir samtakamátt og samkennd meðal íbúa.  Það er mikilvægt að hlú að slíkum verkefnum því þau auðga samfélagið sem við búum í. Það er mér því sönn ánægja að veita þeim brautargengi með þessu móti,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri.

Þær umsóknir sem hljóta styrk úr sjóðnum eru eftirtaldar:

1.   Lionsklúbburinn Úlfar; Katla:Átaksverkefni gegn einelti í Árbæ og Grafarholti, 300 þús. kr. Lionsklúbburinn Úlfar hefur látið gera stutta kvikmynd um einelti og mun nú fylgja myndinni úr hlaði  með dreifingu og fundarherferðum í Árbæ og Grafarholti.

2.   Frjálsíþróttadeild Ármanns; Ruslapokarall – hreinsun í Laugardals hverfi,
 320 þús. kr. Um er að ræða nýja nálgun í virkjun íbúa til samstarfs um hreinsun hverfisins. Haldinn verður fjölskyldukeppni sem felst í útiveru, hreyfingu og skemmtilegum félagsskap við ruslatínslu.

3.   Þekkingarsetur Áss um félagstengsl og kynímyndun; Allt um okkur-fræðsluefni  um kynhegðun og félagsleg samskipti, 500 þús. kr.
Verkefnið felst í útgáfu fræðsluefnis um kynhegðun, kynfræðslu og félagsleg samskipti fyrir þroskahamlaða á öllum aldri.

4. Knattspyrnufélagið Valur; Virknisetur á Hlíðarenda, 600 þús. kr. Verkefnið felst að gera almenningi kleift að nýta sér aðstöðuna á Hlíðarenda og í nágrenni sér til heilsubótar að kostnaðarlausu. Í verkefninu er sérstaklega litið til atvinnulausra einstaklinga.

5.   Sigríður Ásta Eyþórsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir; Enn betri foreldra – enn betri borg: Gaman að eiga ungling, 1.000 þús.kr. Verkefnið er tilraunaverkefni í Vesturbæ þar sem hleypt verður af stokkunum markvissu foreldrastarfi með námskeiðum og eftirfylgni. Ætlunin er að þróa verkefnið áfram og nýta í fleiri skólum borgarinnar.

6.   SEEDS (SEE beyonD borderS); Grænir dagar í Reykjavík, 1.500 þús. kr. Verkefnið felst í að auka umhverfisvitund almennings með því að vekja athygli á því hvernig einstaklingar geti lagt sitt af mörkum til að bæta umhverfið.

7.  Gláma Kím Arkitektar; Gagn og gaman – úti, 1.500 þús. kr. Verkefnið er rannsóknar- og þróunarverkefni þar sem hlutverk og skipan leikvalla og leiksvæða verður skoðað að teknu tilliti til þarfa og óska nærsamfélagsins.

8.   Lani Yamamoto – Hugmyndasmiðjan; Náttúrugæslustöðin – Reykjavík, 2.000
þús. kr.  Í verkefninu Náttúrugæslustöðin – Reykjavík gefst almenningi tækifæri til að taka þátt í gagnvirkum tilraunum þar sem umhverfisheilsufar borgarinnar er dregið fram, kannað og bætt..

9.   Anh-Dao Tran og Ómar H. Kristmundsson; Alþjóðlegt ungmennahús - Framtíð  okkar  í nýju landi, 2.000 þús. kr.  Verkefnið felur í sér starfsemi      ungmennamiðstöðvar sem hefur að markmiði að stuðla að því að efla ungt fólk af erlendum uppruna til að takast á við starf og forystu í íslensku samfélagi.

10.  Miðstöð fyrir ungt fólk í atvinnuleit í Austurbæ; Stuðningur til að virkja hugmyndir ungs fólks, 5.000 þús. kr. Borgarstjórn samþykkti fyrr í vor að setja á laggirnar miðstöð fyrir ungt fólk í Austurbæ. Styrk Forvarna- og framfarasjóðsins er ætlað að nýtast í ýmis verkefni að frumkvæði ungs og skapandi fólks í gegnum miðstöðina.

Tillaga um forvarna- og framfarasjóð Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarráði þann 29. nóvember 2007. Markmið með stofnun sjóðsins er að stuðla að árangri í forvarnastarfi, eflingu félagsauðs, auknu öryggi íbúa og bættri umgengni í borginni. Ennfremur er það hlutverk sjóðsins að gefa einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum tækifæri til frumkvæðis og nýsköpunar á sviði forvarna og framfara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert