Erfiðleikarnir miklir

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

„Það er alveg ljóst að erfiðleikarnir hjá ríki og sveitarfélögum eru meiri en menn bjuggust við, þannig að það þarf að taka enn fastar á ríkisfjármálunum,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að loknum fundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gærkvöldi.

Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra funduðu þá með fulltrúum atvinnurekenda og launþega um hinn svokallaða stöðugleikasáttmála.

Niðurskurður hugsanlega enn meiri en talið var

Að sögn Jóhönnu var farið yfir málin í stórum dráttum, en það sem spili m.a. inn í sé að meiri óvissa ríki nú um hagvöxtinn en áður var haldið. „Það er ljóst að það þarf að vinna mjög hratt á næstu dögum og það var ákveðið að setja mikinn kraft í þetta,“ segir Jóhanna.

Vinnuhópar ríkisstjórnarinnar muni af auknum krafti fara yfir efnahags- og atvinnumálin, ríkisfjármálin og velferðarmálin. „Þá erum við að tala um hverju á að hlífa í velferðarkerfinu og hverju þarf að fórna. Þetta er mjög erfitt, við erum að tala um mjög stórar stærðir og kannski verður þetta meira sem við þurfum að fara í niðurskurð á eða í tekjubreytingar og hagræðingu, þar sem staðan er jafnvel verri en menn héldu áður.“

Ekki með sérstakt útspil fyrir kjaraviðræðurnar

Viðræður Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins hafa verið fastar í sömu sporum síðan fyrir helgi vegna ósættis um hvenær unnt sé að efna fyrirheit um almennar launahækkanir á vinnumarkaði. Aðspurð sagði Jóhanna ríkisstjórnina ekki myndu koma með sérstakt útspil í launaþáttinn til að þoka umræðunni áfram.

„Við fórum hinsvegar yfir stöðuna í stórum dráttum er varðar bankamálin og þar virðist allt ætla að ganga eftir eins og við höfðum áætlað þannig að hægt sé að endurfjármagna þá í júlí.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert