Tæp 44% þeirra, sem tóku þátt í Þjóðarpúlsi Gallup, segjast ánægð með val á ráðherrum Samfylkingarinnar en rúm 42% eru ánægð með val á ráðherrum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. 22% eru óánægð með ráðherra Samfylkingarinnar og 24% óánægð með ráðherraval VG. Aðrir eru hlutlausir.
Flestir þeirra, sem lýstu óánægju með ráðherraval VG nefndu Jón Bjarnason. Þeir ráðherrar sem helst voru nefndir af þeim sem voru óánægðir með ráðherraval Samfylkingarinnar voru Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir.
Aðrar ástæður sem nefndar voru fyrir óánægju með val á ráðherrum eru vanhæfni, reynsluleysi og að ekki hafi verið valið hæfasta fólkið til að sinna ákveðnum málaflokki út frá menntun og fyrri reynslu.
Þessar niðurstöður fengust í netkönnun sem gerð var dagana 13. - 27. maí. Svarhlutfall var 62% og úrtaksstærð 2547 manns.