Íslenskur nemi við Arkitektaskólann í Árósum í Danmörku, var í dag dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í Vestri-Landsrétti fyrir skjalafals. Íslendingurinn, sem er 25 ára, var fundinn sekur um að hafa falsað inntökubréf sitt við skólann fyrir tveimur árum. Ólíklegt er að maðurinn fái að ljúka námi við skólann.
Á fréttavef blaðsins Århus Stiftstidende kemur fram, að Íslendingurinn sé niðurbrotinn eftir dóminn en hann hafði áður verið sýknaður í undirrétti.
Maðurinn var talinn hafa fengið neitunarbréf frá skólanum en rifið það í tvennt og skeytt nýjum hluta við bréfið og breytt því þannig í bréf sem staðfesti inntöku hans í skólann vorið 2007. Eftir tveggja ára nám er ungi maðurinn nálægt því að útskrifast með BA gráðu í faginu.
Maðurinn hélt fram sakleysi sínu og stóð fast við að inntökubréfið væri ófalsað.
Það mun vera undir rektor skólans komið hvort Íslendingurinn fær að halda námi sínu áfram en hann var dæmdur í 40 daga skilorðsbundið fangelsi. Fram kom í réttarsalnum, að maðurinn hefði m.a. leikið með íslenska unglilandsliðinu í knattspyrnu.