Hermann Hreiðarsson fyrirliði landsliðsins í fótbolta er rosalega góður handahlaupari. Eiður Smári Guðjohnsen er hinsvegar handónýtur í því og segist hafa fengið meiri hæfileika í fæturna. Hermann skoraði á hann að keppa í handahlaupi en Eiður Smári færðist undan.
Landsliðið lék á alls oddi á æfingu fyrir leikinn gegn Hollendingum á Breiðabliksvellinum nú síðdegis. Hermann Hreiðarsson og Eiður Smári hlakka til að etja kappi við Hollendinga og eru sammála um að það sé önnur tilfinning að leika með íslenska liðinu.
Eiður Smári segir að pressan sé mun minni en hann segist aldrei hafa upplifað jafn mikla pressu og hjá Barcelona. Hún sé miklu meiri en í Englandi. Hann segist þó ekki vera á förum frá Barcelona. Engin ákvörðun liggi enn sem komið er fyrir um það.
Hermann segir að það hafi mikla þýðingu og sé mikill heiður að vera valinn til að leika fyrir íslensku þjóðina og liðið hafi oft náð frábærum árangri í gegnum tíðina. Aðspurður um hvort það sé erfitt að vera þekktur Íslendingur þegar landið sé í neikvæðu ljósi vegna bankahrunsins segir hann svo ekki vera. Nær öll lönd eigi í fjárhagserfiðleikum í dag. Hann verði alltaf stoltur Íslendingur hvað sem gerist. Sjá Mbl sjónvarp.