Möltuferð ekki á vegum ríkisstjórnar

Össur Skarphéðinsson og Tonio Borg, utanríkisráðherra Möltu, í Valletta í …
Össur Skarphéðinsson og Tonio Borg, utanríkisráðherra Möltu, í Valletta í gær.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, upplýsti á Alþingi í dag að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefði ekki borið áform um heimsókn til Möltu undir sig eða ríkisstjórnina enda væri ekki vaninn að utanríkisráðherra bæri ferðaplön sín undir ríkisstjórn.

„Ráðherra er að sjálfsögðu heimilt að heimsækja þá sem hann telur sig eiga erindi við og þeir sem taka á móti honum að gera það, rétt eins og við fáum okkar gesti og tökum á móti þeim þótt ekki líki öllum vel í sumum tilvikum," sagði Steingrímur.

„Kannski er hann þarna fyrst og fremst í fræðsluskyni að læra af eyþjóðinni sem þarna býr. Ef marka má fjölmiðlafréttir hefur hann rætt eitthvað við þá um þeirra reynslu af að ganga inn í Evrópusambandið og ég held ekki að neinn geti láð honum að vilja spjalla um það; hann er kunnur áhugamaður um það mál," sagði Steingrímur. 

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Steingrím hvort hann gæti upplýst nánar hvað utanríkisráðherrum Íslands og Möltu hefði farið á milli. Hann sagði einnig athyglisvert, að ferð Össurar skyldi ekki hafa verið rædd í ríkisstjórn. Það hlyti að takmarka mjög hvað hann geti rætt um við ráðherra erlendra ríkja.  Það kunni hins vegar að vera rétt, að  Össur hafi viljað fræðast af Maltverjum um hvernig þeim tókst að halda yfirráðum yfir strandveiðum við eyjuna.

Steingrímur sagði að treysta yrði utanríkisráðherra til að fara vel og gætilega með vald sitt „og kunna orðum sínum stað eins og hann er þekktur fyrir, af sinni hógværð, þannig að ég hef engar áhyggjur af því að þessi ferð utanríkisráðherra verði til annars en gagns og honum vonandi til gleði."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert