Mótmæla Icesave samningi

Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir upphæð Icesave samninganna hærri en Ísland ráði við en í undirbúningi er  þingsályktunartillaga þar sem mótmælt er drögum að samningi við Breta vegna málsins. 

Sterkur orðrómur er um það í þinginu að skrifað verði fljótlega undir en Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra bar það til baka í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Sagði Steingrímur, í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokks, að viðræður aðila hefðu gengið hægar en ætlað var, m.a. vegna þess að Bretar hafi ítrekað óskað eftir frestun. Því séu formlegar samningaviðræður ekki hafnar og ekki standi til að ganga frá samkomulagi á morgun eða næstu daga. Slíkt samkomulag verði heldur ekki gert án samráðs við utanríkismáalanefnd þingsins.

Þór Saari sagðist hins vegar í dag hafa það úr fleiri en einni átt að það standi til að skrifa undir skuldbindingarnar á morgun í London.

Þór segist vara við því enda sé um að ræða skuldbindingar upp að sjö hundruð milljörðum. Íslendingar eigi ekki að þurfa að kyngja því að skrifað sé undir slíkar skuldbindingar án þess að Alþingi hafi fjalla ítarlega um málið.

Þór segir ekki ljóst hverskonar samningur þetta sé. Hugmyndin sé þó sú að traust útlánasöfn bankanna komi á móti þessum 700 milljörðum þannig að Íslendingar greiði að hámarki eitthundrað milljarða.  Traust útlánasöfn séu hinsvegar ekki fyrir hendi í dag. Sem  dæmi hafi skuldabréf í General Motors verið traust áður en fyrirtækið fór á hliðina um helgina.  

Hann segir að stjórnvöldum virðist liggja á að ljúka þessu máli til að geta hafið aðildarviðræður við ESB en það sé skilyrði fyrir viðræðum að þessu máli verði lokið.

Þór Saari segir að þarna sé hugsanlega verið í asanum að bæta 700 milljörðum við skuldaklafa Íslendinga. Það sé stór upphæð fyrir Íslendinga en sé litið til höfðatölu, sé samsvarandi upphæð um 300 millljónir fyrir Breta. Þetta sé því nánast skiptimynt í því samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka