Niðurfelling skulda þýðir kollsteypu

Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustóli á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustóli á Alþingi. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að yrði farið að tillögum talsmanns neytenda og Framsóknarflokksins um niðurfellingu skulda myndi setla allt endurreisnarferli bankanna í uppnám yrðu þær að veruleika.

Þá myndu tillögur Framsóknarflokksins um afkriftir hluta fasteignaskulda myndi það kosta bankana 900 milljarða króna, þar af 285 milljarða vegna heimilanna í landinu. „Ef farið verður í þessar aðgerðir þá munum við fara hér í aðra kollsteypu,“ sagði Jóhanna á Alþingi þegar rætt var utan dagskrár um skuldir heimilanna.

„Þá hefur Framsóknarflokkurinn ekki tekið með hvað þetta þýddi fyrir Íbúðarlánasjóð, sem færi á hausinn ef það væri farið að tillögum framsóknarmanna,“ sagði Jóhanna og bætti við að ekki hafi verið rætt hvaða áhrif þetta hefði á lífeyrissjóðina og greiðslustöðuna þar.

„Ef farið væri í tillögur framsóknarmanna þá þýddi það 17.500 heimili, sem eru með meira en 20 milljónir kr. í jákvæða eiginfjárstöðu, að niðurfelling á húsnæðisskuldum þeirra væri 41 milljarður kr., sem er meira en við förum nú með í allar barnabætur og húsnæðisbætur, fæðingarorlof og fleira. Og þetta er tvöfalt meira en sá halli sem við þurfum að glíma við á þessu ári,“ sagði ráðherra.

„Óraunhæfar aðgerðir eins og hér hefur verið lagt fram, sem að setja þessa þjóð þráðbeint á höfuðið, að það eru ekki tillögur sem ég vil fara í,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka