Ragnhildur skipuð ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti

Ragnhildur Arnljótsdóttir.
Ragnhildur Arnljótsdóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur skipað Ragnhildi Arnljótsdóttur ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu frá 1. júní til fimm ára. Bolli Þór Bollason, sem var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, hefur verið skipaður ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu frá sama tíma.

Á heimasíðu forsætisráðuneytisins er vísað til  36. greinar laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um flutning embættismanna ríkisins milli starfa.

Ragnhildur gegndi embætti ráðuneytisstjóra í félags- og tryggingamálaráðuneytinu frá árinu 2004 og var sett ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu frá 1. febrúar sl. þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók við embætti forsætisráðherra. Á sama tíma fékk Bolli Þór Bollason tímabundið leyfi frá störfum og einnig Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins.

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hefur jafnframt ráðið Önnu Sigrúnu Baldursdóttur aðstoðarmann sinn. Anna Sigrún hefur starfað á Landspítalanum við fjármálráðgjöf frá árinu 2007. Áður starfaði hún við eigin rekstur á sviði heilbrigðisþjónustu, meðal annars öldrunarþjónustu.

Ragnhildur Arnljótsdóttir er fædd á Húsavík 20. júní árið 1961. Hún útskrifaðist sem lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1991.  Hún starfaði áður í nefndadeild Alþingis og í heilbrigðisráðuneytinu og var fulltrúi félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel. 

Bolli Þór Bollason er fæddur í Reykjavík árið 1947. Hann lauk námi í þjóðhagfræði við háskólana í Manchester og Kaupmannahöfn. Hann var hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun frá árinu 1975 en var skipaður skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins árið 1987 og ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu árið 2004.

Anna Sigrún Baldursdóttir bjó í Stokkhólmi um nokkurra ára skeið og starfaði einnig þar við heilbrigðisþjónustu jafnt í einkarekstri og hjá ríkisstofnunum. Hún lauk hjúkrunarfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1995 og MBA prófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007.

Bolli Þór Bollason.
Bolli Þór Bollason.
Anna Sigrún Baldursdóttir.
Anna Sigrún Baldursdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert