Skuldavandinn minni en talið var

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segist hafa nýjar upplýsingar frá Seðlabanka Íslands undir höndum sem sýni að skuldavandi heimilanna sé ekki eins skelfilegur og margir hafi viljað láta í veðri vaka.

Jóhanna segir að tæplega 5.000 heimili séu með neikvæða eiginfjárstöðu upp á 5 milljónir kr. eða meira. Þau skuldi samanlagt tæplega 20% af öllum heildar húsnæðisskuldum. „Þessi heimili standa verst og eru í mestri hættu á að fara í þrot verði þau fyrir tekjumissi.“

Jóhanna segir jafnframt, að 60% heimila séu með meira en 5 milljónir kr. í jákvæða eiginfjárstöðu og á þeim hvíli samtals um 44% af heildar húsnæðislánum.

„Nú hefur Seðlabankinn fengið ítarlegri upplýsingar um stöðu þessara sömu heimila, bæði varðandi tekjur þeirra og einnig stöðu bílalána, og verða þær niðurstöður kynntar með ítarlegum hætti á næstu dögum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þegar fengið virðast þessar nýju upplýsingar staðfesta að skuldavandi heimilanna sé ekki eins víðtækur og ýmsir halda fram,“ sagði Jóhanna við utandagskrárumræðu um stöðu heimilanna, sem hófst kl. 15.

Jóhanna segir að tölurnar sýni að um 74% heimila með fasteignaveðlán verji innan við 30% ráðstöfunartekna sinna til að standa undir fasteignalánum sínum. Og um 80% heimila verji innan við 20% af ráðstöfunartekjum sínum í bílalán.

„Langstærstur hluti heimila landsins býr því við viðráðanlega greiðslubyrði vegna fasteigna- og bílalána, skv. nýjum niðurstöðum seðlabankans. Um er að ræða um 60% af húsnæðisskuldum landsmanna,“ segir Jóhanna.

„Þessar nýju upplýsingar frá seðlabankanum sýna hins vegar svart á hvítu að skuldavandi heimilanna er ekki eins skelfilegur og málshefjandi hér í dag [Sigmundur Davíð Gunnlaugsson] og ýmsir aðrir vilja láta í veðri vaka,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert