Nýir framfærslustyrkir eru nú í boði fyrir íslenska námsmenn á Norðurlöndum og verknámsnema sem vilja fara þangað í starfsþjálfun. Styrkirnir eru hluti af ráðstöfunarfé Norrænu ráðherranefndarinnar.
Menntamálaráðherrar og samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu nýlega að veita hluta af ráðstöfunarfé Norrænu ráðherranefndarinnar til að styrkja unga, íslenska námsmenn til dvalar á hinum Norðurlöndunum og létta þeim róðurinn vegna áfalla sem stafa af fjármálakreppunni og atvinnuleysi sem henni fylgir. Til ráðstöfunar eru 5,5 milljónir danskar krónur á árinu 2009 og sama upphæð á árinu 2010. Var menntamálaráðuneyti falið að móta reglur um það hvernig þessum fjármunum væri best varið.
Ráðuneytið hefur nú ákveðið að verja þessu fé með tvennum hætti.
Í fyrsta lagi verður úthlutað dvalar- og ferðastyrkjum til ungs fólks í verknámsgreinum sem hefur hug á að sækja viðurkennda starfsþjálfun erlendis í 2 til 6 mánuði og ekki fær greidd laun á meðan starfsþjálfun stendur. Er sérstaklega er horft til þeirra sem misst hafa vinnu á starfsþjálfunarsamningi hjá atvinnurekanda sem orðið hefur að hætta rekstri. Samið hefur verið við IÐUNA fræðslusetur um að annast umsýslu og afgreiðslu sem falla undir þennan lið.
Í öðru lagi verður úthlutað framfærslustyrkjum í allt að þrjá mánuði til þeirra sem skráðir eru í nám erlendis sem nýtur viðurkenningar samkvæmt reglum LÍN. Miðað er við aðstoð við einstaklinga sem eru í fjárhagsvanda vegna atvinnuleysis yfir sumarmánuðina þar sem námslán gera ráð fyrir eða 9-10 mánaða uppihaldi og viðkomandi eiga heldur ekki rétt á atvinnuleysisbótum vegna búsetuskilyrða. Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins mun halda utan um þennan hluta
Veffang IÐUNNAR.
Veffang Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins.