Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að það væri hreinlega röng fullyrðing að Þjóðverjar hefðu hótað Íslendingum með einhverjum hætti.
Sagði Gylfi að unnið sé að því að tölvupóstur til skilanefndar Kaupþings, sem túlkaður hefur verið með þessum hætti, verði birtur opinberlega sem fyrst svo hægt væri að sýna fram á þetta með óyggjandi hætti.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Gylfa um málið og vitnaði í fréttir í fjölmiðlum. Gylfi sagði rétt, að Þjóðverjar hefðu haft áhyggjur af því að útgreiðslur innistæðna á Kaupthing Edge reikningum myndi dragast. Hins vegar hefðu Þjóðverjar ekki haft í neinum hótunum til að þrýsta á slíkar greiðslur.
„(Halda menn) að hið stóra og mikla vinaland okkar, Þýskaland, stundi þau vinnubrögð í alþjóðasamskiptum að það hóti vinaþjóðum sínum með því að láta starfsmann í ráðuneyti skrifa bankastarfsmanni einhver skilaboð?" spurði Gylfi og bætti við að þá væru menn að gera Þjóðverjum upp ansi miklar sakir. „Haldi menn að Þjóðverjar hafi ekki betri leið til að koma skilaboðum til íslenskra stjórnvalda, telja þeir þá að næsta skref Þjóðverja verði að setja flöskuskeyti í höfnina í Hamborg?," spurði Gylfi og sagðist m.a. hafa hitt sendiherra Þýskalands margoft á undanförnum mánuðum.