Fulltrúar frá Landssamtökum lífeyrissjóða og fjórum stærstu sjóðunum, Gildi, Lífeyrissjóði verslunarmanna, LSR og Sameinaða lífeyrissjóðnum, munu í dag funda með aðilum vinnumarkaðarins í Karphúsinu til að ræða hugmynd um að sjóðirnir færi erlendar eignir sínar til landsins.
Fundurinn hefst klukkan eitt í dag.
Eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag hafa komið upp hugmyndir í viðræðum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, um að lífeyrissjóðirnir færi erlendar eignir sínar til landsins, m.a. til þess að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands. Í árslok 2008 námu erlendar eignir sjóðanna 473 milljörðum.
Þá er einnig ríkur vilji til þess að lífeyrissjóðir landsins láni til framkvæmda í meira mæli en áður.