Auðunn, lóðsinn í Sandgerðishöfn sökk nú fyrir skömmu er hann var að aðstoða við að koma Sóleyju Sigurjóns GK 200 á flot í innsiglingunni í Sandgerði.
Tveir menn voru í lóðsinum, annar uppi á dekki en hinn í stýrishúsi. Sá í stýrishúsinu fór niður með lóðsinum en komst upp á yfirborðið um 1-2 mínútum eftir að báturinn sökk. Bátar frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum voru á svæðinu og náðu mönnunum úr sjónum. Farið var með þá að bryggju þar sem björgunarsveitafólk hlúði að þeim þar til sjúkrabílar komu á staðinn. Farið var með mennina á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Auðunn var að ýta á bakborðshlið Sóleyjar þegar hún losnaði og vildi þá ekki betur til en að landfestar hennar, sem voru tengdar í lóðsinn, drógu bátinn á hliðina. Eftir að búið var að ná mönnunum úr sjónum var hafist handa við að reyna bjarga lóðsinum en það tókst ekki og sökk hann nokkrum mínútum eftir atvikið.
Sóley Sigurjóns er laus og komin að bryggju.