„Hendið þessari hugmynd og byrjið að bjarga þjóðinni,“ sagði Þorvarður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Deloitte, í lok ræðu sinnar á fundi um auðlindanýtingu í Vestmannaeyjum í dag. Þorvarður sagði fyrningarleiðina dæmda til þess að gera sjávarútvegsfyrirtæki óstarfhæf. Stærsti vandinn væri þó ríkisbankanna.
Þorvarður sagði bókfærða eign sjávarútvegsfyrirtækja, vegna aflaheimilda, nema um 200 milljörðum miðað við árslok 2008. Sagði hann það gefa „auga leið“ að fyrning þessara bókfærðu eigna, án þess að skuldir minnkuðu á móti, myndi koma sjávarútvegsfyrirtækjum í mikinn vanda.
Mestur yrði þó vandi ríkisbankanna, sagði Þorvarður. „Ríkisbankarnir myndu sitja uppi með tjónið á endanum. Sá vandi er alvarlegasta afleiðing fyrningarleiðarinnar að mínu mati,“ sagði Þorvarður.