Mikilvægt að hlúa vel að lögreglunni

Geir Jón Þórisson heilsar Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra á fundinum í …
Geir Jón Þórisson heilsar Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra á fundinum í kvöld. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, sagði í ávarpi sínu á borgarafundi í Seljakirkju um löggæslumál í Breiðholti að á tímum sem þessum á Íslandi gerði fólk kröfu um réttlæti og að lögregla og dómstólar sinntu hlutverki sínu. „Ég tel mikilvægt að í þessu árferði að við hlúum vel að lögreglunni. Við verðum að trúa því að lögum og reglum sé framfylgt af krafti hér á landi.“
 
Skipulagsbreytingar hjá lögreglunni í Breiðholti hafa leitt til þess að fimm lögreglumenn, þar á meðal tveir hverfislögreglumenn, hafa verið fluttir úr Mjóddinni yfir á Dalveg í Kópavogi. Þaðan er löggæslu fyrir Kópavog og Breiðholt sinnt.
 
Ró er yfir fundarmönnum en margir hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir stöðu mála. Hér er jafnframt lofi ausið yfir hverfislögreglumennina tvo sem nú eru staðsettir á Dalvegi en voru áður staðsettir í Mjódd. Einn fundarmaður sagði að honum þætti torskilið hvernig breytingunum væri ætlað að færa löggæsluna nær borgurunum þegar lögreglustöðin væri með þeim færð úr hverfinu sjálfu - í brott frá borgurunum. Hann benti ennfremur á mikilvægi þess að hafa hverfislögreglumenn í Breiðholti. „Lögreglumaður sem þekkir vel til í hverfinu getur virkað sem margfaldur.“
 
Annar fundarmaður benti á að í Kópavogi væru einnig börn og unglingar. „Þetta er allt ein stór heild. Auðvitað væri best fyrir mig ef lögreglustöðin væri við hliðina á húsinu mínu en þetta er ekki svo einfalt.“
 
 „Þið verðið að vita að við erum áhyggjufull hérna, ekki síst við sem vinnum með ungu fólki,“ lýsti annar fundarmaður yfir.
 
Einnig var spurt hvort breytingunum yrði snúið við ef árangur lögreglunnar myndi versna í Breiðholti í kjölfarið á þeim. Stefán Eiríksson áréttaði að markmið breytinganna væri að efla og bæta löggæsluna í Kópavogi. „Ef árangur næst ekki verður brugðist við því með einhverjum hætti - það er ljóst. Það skiptir ekki öllu hvoru megin lækjarins hlutirnir eru, heldur hvort þjónustan er góð og árangursrík." Hann benti einnig á að hverfislögreglumennirnir hefðu áfram aðstöðu í þjónustumiðstöðinni í Mjódd þrátt fyrir að þeir fengju nú fleiri verk á sínar hendur.
 
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, tók einnig til máls á fundinum. Hann benti á að aðstæður hefðu breyst til hins betra á undanförnum árum í Breiðholti.  „Hópamyndanir unglinga og alvarleg afbrot þeirra voru áður fyrr álitin nánast óyfirstíganleg vandamál í Breiðholti. Við höfum unnið að því að kortleggja þá ogþ að hefur gengið vel. Gleymum ekki að aðstaða lögregla í húsi er ekki höfuðmálið í löggæslu heldur aðstaða hennar í hverfunum sjálfum og breytingarnar eru til þess að bæta hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert