Nefnd skoðar áhrif fyrningarleiðar

Atli Gíslason
Atli Gíslason Árni Sæberg

Ellefu manna nefnd verður skipuð í dag, eða á morgun, til þess að skoða hagræn áhrif svonefndar fyrningarleiðar í sjávarútvegi. Um þetta upplýsti Atli Gíslason, formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis og þingmaður Vinstri grænna, á opnum fundi um auðlindanýtingu í Vestmannaeyjum í dag.

Sagði hann alveg ljóst, frá hans bæjardyrum, að fyrningarleiðin yrði ekki farin ef það kæmi í ljós, við gaumgæfilega skoðun, að leiðin myndi grafa undan sjávarútvegnum og valda miklum vanda í sjávarbyggðum, eins og útgerðarmenn hefðu haldið fram.

Atli sagðist ekki viss um að fyrningaleiðin myndi gera það. Frekar væri líklegt að vandi sjávarútvegsfyrirtækja einn og sér, þá helst of mikil skuldsetning vegna hruns krónunnar og fjárfestingar í aflaheimildum, myndi valda sjávarútvegsfyrirtækjum tjóni. „Hvað á að gera við kvóta fyrirtækja sem sligast undan skuldum?“ spurði Atli m.a. Sagði hann mikilvægt að tryggja að aflaheimildir færu ekki út úr þeim byggðum þar sem fyrirtæki hefðu verið með starfsemi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert