Landsvirkjun hefur boðað 7,5% hækkun á raforkuverði sínu til almenningsveitna frá og með 1. júlí næstkomandi, að því er fram kemur á vef Orkuveitu Reykjavíkur.
Í kjölfarið mun gjaldskrá Orkuveitunnar einnig hækka og er sú skýring gefin að kaup á raforku frá Landsvirkjun séu umtalsverður hluti af innkaupum OR fyrir almennan markað og leiði því til kostnaðarhækkunar. Áhrifin nema 5,05% en hækkun OR er 2,5%. Með dreifingarkostnaði, flutningsgjaldi og virðisaukaskatti fer kílóvattstundin úr 9,15 kr. í 9,38 kr. sem er 2,5% hækkun. Að sögn Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, er um samningsbundna hækkun að ræða. Hækkunin sé talsvert undir því sem heimilt væri í raun vegna verðlagsbreytinga. una@mbl.is