Ósátt við auglýsingabækling

Bæklingurinn umdeildi.
Bæklingurinn umdeildi.

 „Þarna er verið að klámgera heila fagstétt, sem er með fjögurra ára háskólanám að baki,“ segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh), og vísar þar til auglýsingabæklingar fyrirtækisins Poulsens sem dreift hefur verið í öll hús á höfuðborgarsvæðinu.

Í samtali við mbl.is bendir Elsa á að myndirnar í bæklingnum séu myndir af  léttlæddri konu í búningi sem augljóslega eigi að vísa til hjúkrunarfræðinga.

„Því miður gerist það öðru hvoru að fyrirtæki birta auglýsingar eða gefa út bæklinga og telja sér til styrktar að birta myndir af léttklæddum konum í búningum og í stellingum og með tæki sem ekki verður skilið öðruvísi en að eigi að vísa til hjúkrunarfræðinga,“ segir Elsa og tekur fram að félagið hafi það fyrir venju að bregðast hratt og ákveðið við slíku. Sökum þessa hafi hún sent tölvupóst til félagsmanna Fíh þar sem hún óskaði eftir því að þeir sendu póst til forsvarsmanna Poulsens og mótmæltu þessum  auglýsingabæklingi fyrirtækisins. Þess má geta að alls eru tæplega 3.500 félagsmenn í Fíh, þar af eru 98% þeirra konur. 

„Við viljum gera fyrirtækjum það ljóst að þeir geta skaðað eigin ímynd og misst viðskipti út á þetta, miklu frekar en að fá viðskipti,“ segir Elsa. 

Að sögn Elsu hefur hún, auk þess að gera athugasemd við bæklinginn hjá framkvæmdastjóra fyrirtækisins, haft samband við Íslandspóst enda finnist sér óeðlilegt að ríkisfyrirtæki sjái um dreifingu á efni sem hafi beina vísun í klám, haft samband við forsvarsmenn þeirra tryggingafyrirtækja sem nafngreind eru í bæklingnum og kvartað undan bæklingnum hjá Jafnréttisstofu þar sem málið sé komið í farveg.

„Það er ekki hægt að skilja bæklinginn öðruvísi en sem svo en að tryggingafélögin fjögur hafi samþykkt eða styrkt útgáfu þessa bæklingsins, en eftir samtöl við forsvarsmenn tryggingafélaganna hef ég komist að því að sum tryggingafélaganna hafa ekki gefið samþykki sitt fyrir notkun á lógói þeirra í bæklingnum,“ segir Elsa.

Kvörtun kemur á óvart

„Þessi kvörtun kemur okkur á óvart og okkur finnst mjög leiðinlegt ef bæklingurinn hefur farið svona illa í þessa stétt,“  segir Ragnar Matthíasson, framkvæmdastjóri Poulsen. Í samtali við mbl.is segist Ragnar hafa fullan skilning á sjónarmiðum formanns Fíh.

„Hún er náttúrlega bara að verja ímynd stéttarinnar. Þegar við gerðum þennan bækling vorum við meira að hugsa um ímynd bílsins enda þarf að hugsa vel um hann,“ segir Ragnar og bendir á að auglýsingin eigi sér tékkneska fyrirmynd. Leggur hann áherslu á að konan í bæklingnum sé ekki léttklædd og segist aðspurður ekki geta tekið undir það að myndirnar feli í sér klámvísun.

Að sögn Ragnars hefur fyrirtækinu enn sem komið er ekki borist margar kvartanir frá reiðum hjúkrunarfræðingum.  Spurður hvort fyrirtækið hyggist nota bæklinginn aftur svarar Ragnar því neitandi og tekur fram að fyrirtækið hafi ekki áhuga á að reita heila starfsstétt til reiði og standa í deilum við ákveðna hópa í samfélaginu. „Við munum því ekki fara í svona herferð aftur.“ 

Tékkneska auglýsingin sem var innblástur starfsmanna Poulsen að sínum bæklingi.
Tékkneska auglýsingin sem var innblástur starfsmanna Poulsen að sínum bæklingi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert