„Ég óttast að það verði hrikalegar uppsagnir framundan ef svo heldur fram sem horfir,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Vinnuhópar ASÍ héldu áfram störfum í gær en ekki hefur verið fundað með Samtökum atvinnulífsins síðan á föstudag þar sem beðið er m.a. tíðinda um vaxtastefnu Seðlabankans.
Að sögn Gylfa var í gær fyrst og fremst unnið að því að fá yfirlit yfir framkvæmdastöðu Landsvirkjunar, hitaveitnanna, Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna.
„Við erum að reyna að átta okkur á því hvert er umfang framkvæmdastigs og hverjir möguleikar eru á því að stokka upp, ýta mannaflsfrekum framkvæmdum framar og seinka fjármagnsfrekum. En það verður að viðurkennast að staðan er ákaflega dapurleg, það er nánast alkul á þeim vettvangi og ber allt að sama brunni því aðgerðir eru í stoppi vegna þessarar vaxtastefnu.“