Pétur er harmi lostinn

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, vill að ríkisstjórnin ræði sérstaklega vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun sem hafi valdið miklum vonbrigðum. Þingmenn kepptust við að lýsa vonbrigðum með ákvörðun bankans. Enginn gekk þó jafn langt og Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sagðist vera harmi lostinn.

Pétur minnti á að kjarasamningar væru í uppnámi og ríkissjóður tapaði á öllum vígstöðvum, bæði vegna tapaðra skattekna hjá fyrirtækjum, greiðslu atvinnuleysisbóta og himinhárra vaxta til eigenda jöklabréfa.

Þingmenn stjórnarandstöðu kenndu um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar, Framsóknarmaðurinn Birgir Jón Jónsson sagði óviðunandi að engar raunhæfar tillögur lægju fyrir nema að hækka áfengi og tóbak.

Árni Þór Sigurðsson vill að ríkisstjórnin ræði nýlega vaxtalækkun sem hafi valdið vonbrigðum. Hann brást hinsvegar reiður við ásökunum um að ekkert væri að gert í efnahagsmálum og sagði að fjárlaganefnd hefðu verið kynntar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem ynni hörðum höndum að takast á við erfiðleikana í íslensku samfélagi. Hann sagði ómaklegt að tala um kostnað vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar.  Kostnaðurinn sem samfélagið stæði frammi fyrir væri vegna hruns frjálshyggjunnar og efnahagsstjórnar í aðdraganda hrunsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka