Hvort ætli sé óþægilegra að vera þingmaður Samfylkingarinnar eða fréttamaður á Stöð 2 þegar svona rík fjárhagsleg tengsl eru gerð opinber á milli stjórnmálaflokksins og þeirrar fjölmiðlasamsteypu sem að rekur þá fréttastofu? spurði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í morgun.
Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, hafði þá borið upp fyrirspurn um hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér að birta upplýsingar um fjármál undirfélaga flokksins og kjördæmaráða, eins og Samfylkingin hafi gert. Bjarni var mjög ósáttur við framsetningu Róberts á fyrirspurninni og benti á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði einn flokka ákveðið að endurgreiða styrki.
Róbert Marshall sagði í morgun. „Frú forseti, nú hefur forysta Sjálfstæðisflokksins upplýst um vandlega útfærslu endurgreiðsluáætlunar á ofurstyrkjum frá FL Group og Landsbankanum sem felur í sér endurgreiðslu verðbóta og vaxtalaust á sextíu milljóna styrk frá þess um fyrirtækjum sem nú eru orðin að skilanefndum. Það er full ástæða til þess að hrósa formanni Sjálfstæðisflokksins Bjarna Ben. fyrir skilvísina, enda mun hann vera fullur vandlætingar á þeim gífurlegu upphæðum sem hann vissi ekkert um, ekki frekar en varaformaður Sjálfstæðisflokksins háttvirtur þingmaður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, né heldur háttvirtur þingmaður flokksins Guðlaugur Þór Þórðarson; sem að vísu bað vini sína í þessum fyrirtækjum að safna þessum peningum án þess þó að nokkurn tímann hafa rennt í grun að upphæðirnar sem þeir söfnuðu væru svona hneykslanlegar. Enda reyndi háttvirtur þingmaður að fá endurskoðun þess sveitarfélags sem hann vann einu sinni fyrir til þess að skoða málið, þó að málið væri því alls ótengt - svo mikil var vandlætingin.“
Og Róbert Marshall spurði: „Ætlar formaður Sjálfstæðisflokksins ekki að beita sér fyrir því að sjálfstæðisfélög Sjálfstæðisflokksins og kjördæmisráð upplýsi nú um þá styrki sem þau öfluðu án liðssinnis aðalskrifstofu flokksins, líkt og Samfylkingin hefur nú gert?“
Þá óskaði Róbert þess sama af öðrum flokkum þannig að allir stjórnmálaflokkar legðu spil sín á borðið.
Bjarni sagði, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tilnefnt sinn fulltrúa í nefnd um þessi mál sem Róbert spurði um. Ekki vaki fyrir Sjálfstæðismönnum annað en að taka fullan þátt í því starfi með þeim hætti sem lagt hafi verið upp með, þ.e. að flokkarnir séu sammála um upplýsingagjöfina aftur í tímann vegna fjárhagslegra málefna flokka.
„Annars verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér fannst fyrirspurnin á margan hátt ósmekkleg hjá háttvirtum þingmanni.“ Styrkirnir hafi numið 55 milljónum en ekki 60 milljónum króna. Þá hafi Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka ákveðið að endurgreiða styrki.
„Vilji menn nota sér þennan vettvang, fyrrverandi fréttamenn Stöðvar 2, sem reyndar er í þeirri fyrirtækjagrúppu sem er einn helsti styrktaraðili Samfylkingarinnar, eins og fram hefur komið samkvæmt þeim upplýsingum sem nú hafa verið gerðar opinberar, þá er þeim velkomið að gera það. En hversu málnefnanlegt það er er annað mál. Maður veltir því fyrir sér hvort ætli sé óþægilegra að vera þingmaður Samfylkingarinnar eða fréttamaður á Stöð 2 þegar svona rík fjárhagsleg tengsl eru gerð opinber á milli stjórnmálaflokksins og þeirrar fjölmiðlasamsteypu sem að rekur þá fréttastofu."