Fastafulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, Franek Rozwadowski, segir AGS fyrst og fremst fylgjast með peningastefnu Seðlabankans í heild í átt að jöfnu gengi krónunnar og stöðugu verðlagi, en skipti sér ekki af einstaka ákvörðunum.
„Okkur er umhugað um að þessum markmiðum sé náð, en ekki um smáatriði þess hver vaxtaprósentan er, hversu mikið henni er breytt og hvenær. Slíkar ákvarðanir eru komnar undir Seðlabankanum sjálfum og peningastefnunefnd. Okkur þykir hinsvegar ljóst að það ríkir samkomulag um þessi markmið milli okkar.“
Nýlega sögðu fulltrúar AGS að varhugavert gæti verið að lækka vextina við núverandi aðstæður. Aðspurður segir Rozwadowski að ákvörðun Seðlabankans í dag um að lækka vextina um 1 prósentu, úr 13% í 12%, þrátt fyrir tilmæli sjóðsins setji ekki samstarfið milli Íslands og AGS í nokkurt uppnám.
„Nei ég tel svo ekki vera. Við höfum auðvitað okkar skoðanir og látum þær heyrast og varðandi þessa ákvörðun þá var okkar skoðun sú að það þyrfti að fara mjög varlega í að lækka vextina nokkuð.
Það má alltaf deila um smáatriðin, var rétt að hafa litla lækkun þennan mánuðinn eða hefði kannski ekki átt að lækka vextina neitt? Það skiptir okkur ekki öllu máli í raun, það sem skiptir máli er að vaxtastefnan í heild sé í samræmi við þörfina til að tryggja stöðugleika gengisins.“