Seðlabankinn í fílabeinsturni

Gylfi Arnbjörnsson kemur til fundar í Ráðherrabústaðnum í á þriðjudag.
Gylfi Arnbjörnsson kemur til fundar í Ráðherrabústaðnum í á þriðjudag. Eggert Jóhannesson

„Seðlabankinn er beinlínis að koma í veg fyrir það að fulltrúar næstum 150 þúsund launamanna nái því verkefni með sínum viðsemjendum að leggja ríkisstjórninni lið í að ná saman í þessum erfiðu málum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ um vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun.

Gylfi segir lækkunina, um 1 prósentustig, gríðarlega mikil vonbrigði, í það stefni nú hraðbyri að kjarasamningar verði ekki framlengdir. „Atvinnulífið missir bara móðinn við þetta og vill draga sig úr viðræðum og þar með er gerð kjarasamninga í algjöru uppnámi.“ Hann segir Seðlabankann skella skollaeyrum við öllum tilraunum aðila vinnumarkaðarins til samstarfs um með hvaða leiðum væri farsælast að koma vaxtastiginu niður í 5%. Alþýðusambandið hafi lagt fram margar tillögur um hvernig megi hugsanlega koma í veg fyrir að gengi krónunnar falli, eins og Seðlabankinn og AGS óttist, en engin viðbrögð fengið.

Setja sig í dómarasæti og neita að taka þátt 

Gylfi nefnir m.a. hugmyndina sem Morgunblaðið greindi frá í dag um að lífeyrissjóðir styrki gjaldeyrisforðann með því að flytja eigur sínar heim. Einnig að sett verði lagasetning utan um erlenda kröfuhafa þannig að þeim verði meinað að fara út úr hagkerfinu, fremur en að beita alla gjaldeyrishöftum.

„Alls konar svona hugmyndir höfum við sett á borðið en það kemur ekkert annað en þessi Salómonsdómur sem þýðir að þetta hrekkur í sundur.“ Gylfi segir einnig að greinargerð bankans með ákvörðuninni í dag gefi engin fyrirheit um frekara samstarf. Tilefni væri til bjartsýni, „ef það væri boðskapur um að Seðlabankinn vildi stíga úr þessum fílabeinsturni sem þeir búa í og eiga samráð við okkur en það virðist ekki vera og hvers vegna veit ég ekki.

Aðspurður hvað ákvörðun Seðlabankans í morgun þýði fyrir hinn almenna launamann segir hann afleiðingarnar einfaldlega vera þær að launafólk fái ekki launahækkanirnar sínar og áframhaldandi óvissa muni ríkja á vinnumarkaði. Seðlabankinn virðist ætla að loka sig af inni í herbergi og bíða þess að aðrir eyði óvissu áður en þeir taki ákvarðanir. „Þeir eru ekki viðtakendur, þeir setja sig í eitthvert dómarasæti og neita staðfastlega að vera þátttakendur í að búa til atburðarás sem leiði til þess að við komumst út úr þessum ógöngum.“

Fundur er boðaður meðal aðila vinnumarkaðarins kl. 10 í fyrramálið. Gylfi segist reikna fastlega með því að á þeim fundi verði viðræðum einfaldlega hætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert