Þrjár hrefnur veiddust í Faxaflóa í gær og hafa þá samtals veiðst sjö dýr frá því veiðar hófust í maí. Á heimasíðu Félags hrefnuveiðimanna segir, að bátsmenn á Jóhönnu ÁR hafi verið við veiðar mjög utarlega í Faxaflóanum í gær.
Þessu mótmæla Hvalaskoðunarsamtök Íslands og segja að í hvalaskoðunarferð síðdegis í gær hafi sést til Jóhönnu að veiðum í um 16 mílna fjarlægð frá Reykjavík nálægt hefðbundinni hvalaskoðunarslóð.
Í yfirlýsingu frá Hvalaskoðunarsamtökunum segir, að í hvalaskoðunarferð sem farin var klukkan 17 í gær frá Reykjavíkurhöfn og stóð til kl. 21 hafi sést til Jóhönnu ÁR að veiðum í um 16 mílna fjarlægð frá Reykjavík. Það geti ekki talist utarlega í flóanum og er reyndar mjög nálægt hefðbundinni hvalaskoðunarslóð.
Þá segja samtökin, að hvalaskoðunarbátar, sem gera út frá Reykjavík, hafi síðustu vikur átt í erfiðleikum með að finna hrefnur á hefðbundnum hvalaskoðunarsvæðum og því þurft að leita utar í flóann þar sem Jóhanna hafi verið á veiðum.
„Hvalaskoðunarsamtök Íslands ítreka að veiðar og hvalaskoðun geta ekki farið saman og að leyfa veiðar í svo mikilli nálægð við svæðin eins og raun ber vitni er fásinna, nema að tilgangurinn sé að gera útaf við hvalaskoðun á Íslandi. Þetta eru jú sömu dýrin sem synda í sjónum, á milli svæða hvalaskoðunar og veiða. Þessi dýr eru grundvöllur fyrir því að ferðaþjónustufyrirtækin sem bjóða upp á hvalaskoðun geti haldið úti rekstri," segir í yfirlýsingu samtakanna.
Á heimasíðu Félags hrefnuveiðimanna segir, að áætlað sé að hefja vinnslu á kjötinu í dag. Veiðar hafi gengið vonum framar fyrstu dagana í sumar og nýr bátur komið mjög vel út.