„Skipið ruddist upp í hraunið"

Pálmi Sigurður Pétursson, sem var um borð í fjölveiðiskipinu Sóleyju Sigurjóns GK sem strandaði í innsiglingunni í Sandgerðishöfn á sjötta tímanum í morgun, segir að svo virðist sem skipið hafi beygt skyndilega á stjórnborða er það var í rennu í innsiglingunni og beint upp í hraun.

Hann telji líklegast að bilun hafi valdið þessu enda sé skipstjórinn mjög kunnugur öllum aðstæðum á svæðinu. Tvær trillur hafi komið á móti skipinu í innsiglingunni en hann telji ekki að þörf hafi verið á að víkja fyrir þeim.

Pálmi segir höggið við strandið ekki hafa verið mikið, skipið hafi hreinlega rutt sér upp í hraunið. Þá segir hann skipið vel styrkt og  að það eigi því að þola talsvert högg. 

Blíðskaparverður var er strandið varð og beið áhöfn skipsins, sem telur tólf manns, sallaróleg eftir að björgunarskip slysavarnarfélagsins kæmi á vettvang enda segir Pálmi að lítið annað hafa verið hægt að gera.

Slysavarnarmenn fluttu síðan hluta áhafnarinnar í land á slöngubáti en fimm manns eru enn um borð. Reynt verður að draga skipið á flot á flóði um klukkan hálf fimm í dag.

Skipið var að koma inn til löndunar með 30 til 40 tonn af þorski og ýsu en Pálmi segir algera ördeyðu vera á miðunum eins og algengt sé á þessum árstíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka