Vandi lántakenda fer vaxandi

Fimmtán hundruð umsóknir um úrræði vegna greiðsluerfiðleika hafa borist Íbúðalánasjóði frá áramótum. Allt síðasta ár bárust um 1.400 umsóknir og var það þá metfjöldi umsókna. Síðan í haust hafa um og yfir 300 umsóknir borist í hverjum mánuði, flestar í maí, og á bak við þessar umsóknir eru því þrjú þúsund heimili og fjölskyldur. Vandinn fer vaxandi, að sögn Guðmundar Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs.

Guðmundur segir mest óskað eftir frystingu á lánum, en einnig er algengt að fólk nýti sér fleiri en eitt úrræði samhliða. Lítið hefur hins vegar verið sótt um greiðslujöfnun á verðtryggðum lánum, sem eru tengd við launavísitölu í stað vísitölu neysluverðs. Slík aðgerð leiðir til 10-20% lægri greiðslubyrðar en ella, frysting leiðir til um 40-50% lægri greiðslubyrðar.

Önnur úrræði sem bjóðast eru lenging í lánum, sem hentar betur fyrir skemmri tíma lán, skuldbreytingar á vanskilum hjá lánum sjóðsins, auk þess sem hægt er að semja um vanskil sem eru „ekki óyfirstíganleg“, þ.e. ef um er að ræða viðráðanlegar upphæðir fyrir lánþega. Þá býðst þeim sem keyptu nýtt húsnæði en náðu ekki að selja það gamla frysting á öðru eða báðum lánum.

Fólk á strax að leita lausna

Aðspurður segir Guðmundur aðstæður þeirra sem leita þessara lausna mjög misjafnar. Svonefnt millitekjufólk hafi t.a.m. oft skuldsett sig meira en þeir sem lægri tekjur hafa. Millitekjufólkið hafi síðan orðið fyrir tekjutapi og sé því í meiri kröggum en ella. Þá ber að merkja að stærstu skuldirnar eru ekki endilega húsnæðislán, heldur geta verið bílalán eða yfirdráttarlán.

„Svo eru vissulega alltaf tilfelli sem verður ekki bjargað, stundum sýnir t.d. yfirferð hjá viðskiptabanka viðkomandi að frysting á lánum gerir stöðuna bara verri. Við [hjá Íbúðalánasjóði] gerum fólk ekki gjaldþrota og göngum ekki lengra en að bjóða íbúðina upp.“

Um 250 íbúðir í eigu sjóðsins

Þess má geta að Íbúðalánasjóður á nú um 250 íbúðir og milli 40 og 50 þeirra eru í leigu. Ýmist eru það fyrri eigendur sem leigja út íbúðirnar eða þá íbúar sem fá endurnýjaðan leigusamning hjá nýjum leigusala, Íbúðalánasjóði.

Þúsundir hafa nýtt greiðsluúrræði

Þyngst vega erlendu húsnæðislánin og bílalánin. Haukur segir 40% þeirra sem hafa erlent húsnæðislán borga sínar afborganir, en rétt um fjórðungur hafi fengið greiðslujöfnun.

Mun færri, aðeins um 5%, hafa nýtt sér greiðslujöfnun á verðtryggðum lánum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert