Vandi lántakenda fer vaxandi

Fimmtán hundruð umsóknir um úrræði vegna greiðsluerfiðleika hafa borist Íbúðalánasjóði frá áramótum. Allt síðasta ár bárust um 1.400 umsóknir og var það þá metfjöldi umsókna. Síðan í haust hafa um og yfir 300 umsóknir borist í hverjum mánuði, flestar í maí, og á bak við þessar umsóknir eru því þrjú þúsund heimili og fjölskyldur. Vandinn fer vaxandi, að sögn Guðmundar Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs.

Guðmundur segir mest óskað eftir frystingu á lánum, en einnig er algengt að fólk nýti sér fleiri en eitt úrræði samhliða. Lítið hefur hins vegar verið sótt um greiðslujöfnun á verðtryggðum lánum, sem eru tengd við launavísitölu í stað vísitölu neysluverðs. Slík aðgerð leiðir til 10-20% lægri greiðslubyrðar en ella, frysting leiðir til um 40-50% lægri greiðslubyrðar.

Önnur úrræði sem bjóðast eru lenging í lánum, sem hentar betur fyrir skemmri tíma lán, skuldbreytingar á vanskilum hjá lánum sjóðsins, auk þess sem hægt er að semja um vanskil sem eru „ekki óyfirstíganleg“, þ.e. ef um er að ræða viðráðanlegar upphæðir fyrir lánþega. Þá býðst þeim sem keyptu nýtt húsnæði en náðu ekki að selja það gamla frysting á öðru eða báðum lánum.

Fólk á strax að leita lausna

„Mín skilaboð til fólks eru að leita strax lausna hjá okkur eða sínum viðskiptabanka, um leið og það sér fram á vandræði eða tekjutap, ekki bíða eftir að vanskil safnist upp. Ef við tökum dæmi um 20 milljóna króna lán, þá safnast mjög fljótt upp hundraða þúsunda króna vanskil,“ segir Guðmundur. Hann bendir á að þó nokkur umræða hafi verið um úrræði vegna greiðsluvanda og fólk sé þeim því ágætlega kunnugt. Frekar sé að fólki finnist úrræðin ekki nægilega öflug. Þá þurfa vissar aðstæður að eiga við til að fólk eigi rétt á aðgerðunum, t.d. tekjutap vegna atvinnumissis, breytts starfshlutfalls, veikinda, flutninga eða slíks.

Aðspurður segir Guðmundur aðstæður þeirra sem leita þessara lausna mjög misjafnar. Svonefnt millitekjufólk hafi t.a.m. oft skuldsett sig meira en þeir sem lægri tekjur hafa. Millitekjufólkið hafi síðan orðið fyrir tekjutapi og sé því í meiri kröggum en ella. Þá ber að merkja að stærstu skuldirnar eru ekki endilega húsnæðislán, heldur geta verið bílalán eða yfirdráttarlán.

„Svo eru vissulega alltaf tilfelli sem verður ekki bjargað, stundum sýnir t.d. yfirferð hjá viðskiptabanka viðkomandi að frysting á lánum gerir stöðuna bara verri. Við [hjá Íbúðalánasjóði] gerum fólk ekki gjaldþrota og göngum ekki lengra en að bjóða íbúðina upp.“

Um 250 íbúðir í eigu sjóðsins

Viðmælendur blaðamanns hjá bönkunum sögðu það ekki vera stóran hóp sem fengi ekki lausn á sínum málum með úrræðunum sem í boði eru. Bæði bankastarfsmennirnir og Guðmundur bentu á að margir þeirra hefðu verið komnir með fjármál sín í illleysanlegan hnút áður en bankahrunið varð.

Þess má geta að Íbúðalánasjóður á nú um 250 íbúðir og milli 40 og 50 þeirra eru í leigu. Ýmist eru það fyrri eigendur sem leigja út íbúðirnar eða þá íbúar sem fá endurnýjaðan leigusamning hjá nýjum leigusala, Íbúðalánasjóði.

Þúsundir hafa nýtt greiðsluúrræði

„Ég held að staðan sé ósköp svipuð í öllum útibúum, sama hvað bankinn heitir, menn leggja sig alla fram við að reyna að hjálpa fólki,“ segir Haukur Skúlason, forstöðumaður á viðskiptabankasviði Íslandsbanka. Reynt er að færa fram bæði tímabundnar og varanlegar lausnir. „Flest mál er hægt að leysa í útibúunum en þegar það gengur ekki er málum vísað í greiðsluerfiðleikanefnd þar sem þau fara í ákveðið ferli. Þaðan hefur aðeins tuttugu málum verið vísað annað, 96% hafa verið leyst þar.“

Þyngst vega erlendu húsnæðislánin og bílalánin. Haukur segir 40% þeirra sem hafa erlent húsnæðislán borga sínar afborganir, en rétt um fjórðungur hafi fengið greiðslujöfnun.

Mun færri, aðeins um 5%, hafa nýtt sér greiðslujöfnun á verðtryggðum lánum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka