150 þúsund tonna þorskkvóti

Verði fylgt aflareglu verður þorskveiðin 150.000 tonn á næsta fiskveiðiári samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar. Er þetta aukning um 26 þúsund tonn frá ráðgjöf stofnunarinnar í fyrra en aflamarkið á yfirstandandi fiskveiðiári er 160 þúsund tonn.

Veiðiráðgjöfin  nú er nokkru hærri en á síðasta ári. Þá lagði stofnunin til 124.000 tonna aflamark í þorski. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra var hins vegar sú að aflamarkið yrði 130.000 tonn. Þá var 30.000 tonna kvóta bætt við í vetur og heildaraflamarkið varð því 160.000 tonn.

Hafrannsóknastofnunin mælir með því að ákvörðun stjórnvalda um aflamark, sem tekin verður í framhaldinu, taki mið af áætluðum afla utan aflamarks. Það gætu verið 7-10 þúsund tonn, að sögn Jóhanns Sigurjónssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, er þar á hann meðal annars við fyrirætlaðar strandveiðar í sumar.

Með öðrum orðum mælir stofnunin með því að heildaraflinn verði 150.000 tonn og verði veiðar utan  kvóta til að mynda 10.000 tonn, þá verði þorskkvótinn, það sem aflamarksskip fá að veiða, 10.000 tonnum lægri eða 140.000 tonn.

Þá leggur Hafrannsóknastofnun til að veidd verði 57 þúsund tonn af ýsu á næsta fiskveiðiári. Ráðgjöfin fyrir yfirstandandi ár var  83 þúsund tonn en aflamarkið er 93 tonn. Stofnunin segir, að ýsustofninn sé á niðurleið
einkum vegna þess að mjög sé farið að ganga á stóra árganginn frá 2003

Stofnunin leggur til, að aflamark bæði hrefnu og langreyðar verði 200 dýr á yfirstandandi ári eða samtals 400 dýr.

Ekki er gerð tillaga um upphafskvóta vegna loðnuveiða frekar en á síðasta ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert