Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins segir að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um samkomulag sem er í burðarliðnum vegna Icesave deilunnar er ekkert innihald fyrir ítrekuðum yfirlýsingum um gríðarmikinn árangur af samningaviðræðum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þingflokknum.
„Viðræður við erlend stjórnvöld vegna Icesave eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Lausleg kynning á helstu þáttum samningsdraga fyrir þingnefnd og þingflokkum breytir ekki þessari staðreynd. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er ekkert innihald fyrir ítrekuðum yfirlýsingum um gríðarmikinn árangur af samningaviðræðunum. Það mat byggir á samanburði við ímyndaðan samning sem aldrei stóð til að gera. Þvert á móti virðist í burðarliðnum samningur um ríkisábyrgð á gríðarlegum fjárhæðum sem mikil óvissa er um að hve miklu leyti verður hægt að greiða með eignum Landsbankans. Þá ríkisábyrgð mun þurfa að ræða í þinginu. Í þeirri umræðu verður kallað eftir ítarlegum gögnum og allur fyrirvari er hafður á stuðningi við málið á þessu stigi,“ segir í yfirlýsingunni.