Karlmaður á fimmtugsaldri fannst látinn í fangaklefa í lögreglustöðinni við Hverfisgötu í morgun. Að sögn Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er málið í rannsókn.
Aðspurður segir Geir Jón að maðurinn hafi hengt sig en samkvæmt heimildum mbl.is notaði hann teppi til þess. Segir Geir Jón að verið sé að rannsaka hvernig manninnum tókst að fremja sjálfsvíg með þessum hætti.
„Það er eftirlit á 20 mínútna fresti, lágmark. En við höfum ekki fengið neinar greinargerðir ennþá. Málið er til rannsóknar. Hvernig eftirlitinu var háttað og sérstaklega varðandi þetta. Það var ekkert sem kallaði á sérstakt eftirlit,“ segir Geir Jón. Hann segir að þetta hafi verið gert með þeim hætti að sá sem vaktaði klefann gæti ekki séð hvers kyns var.
Maðurinn hafði verið fluttur á stöðina um kl. fimm í morgun. Um kl. 11 var komið að honum látnum. Ekki liggur fyrir hvað maðurinn hafði þá verið látinn lengi.
Maðurinn var handtekinn eftir að hafa ógnað lögreglumönnum með hnífi í Vesturbæ Reykjavíkur í nótt. Lögregla varð að beita varnarúða til að yfirbuga manninn, sem var síðan færður í fangageymslur.