Tveir karlmenn og tvær konur voru í dag úrskurðuð í gæsluvarðhald til 15. júní nk. vegna gruns um aðild að stórfelldri líkamsárás í heimahúsi við Grettisgötu um miðjan dag í gær. Tveimur karlmönnum til viðbótar sem handteknir voru í þágu málsins hefur verið sleppt. Þrjú þeirra hafa kært niðurstöðuna til Hæstaréttar. Fólkið er á þrítugs- og fimmtugsaldri.
Maður liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild eftir árásina. Áverkar hans eru alvarlegir en ekki lífshættulegir. Skýrslutökur stóðu yfir í allan gærdag og þótti nauðsynlegt að halda þeim lengur í varðhaldi.
Allir sem tengjast málinu eru af erlendu bergi brotnir.